Innlent

Vita ekki hversu mikið slapp

Svavar Hávarðsson skrifar
Stangveiði er byggð á ímynd hreinleika íslenskrar náttúru – regnbogasilungur ógnar þeirri ímynd.
Stangveiði er byggð á ímynd hreinleika íslenskrar náttúru – regnbogasilungur ógnar þeirri ímynd. Mynd/Þröstur
Ekki er ljóst hversu mikið af regnbogasilungi hefur sloppið úr sjóeldiskví eldisfyrirtækisins Arctic Sea Farm, en fyrirtækið tilkynnti á fimmtudag að við slátrun á regnbogasilungi úr kví fyrirtækisins í Dýrafirði, kom í ljós gat við botn kvíar. Að öllu eðlilegu hefðu í kringum 200 tonn af sláturfiski átt að vera í kvínni.

Í tilkynningu fyrirtækisins á fimmtudag segir að hér kunni „að vera falin meginskýringin á mögulegri slysasleppingu regnbogasilungs sem fjallað var um síðastliðið haust, þegar engin skýring fannst á því hvaðan regnbogasilungur væri upprunninn sem veiddist í ám á Vestfjörðum.“

Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri Arctic Sea Farm
Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Sea Farm, segir í viðtali við Fréttablaðið að ekki verði ljóst hve mikið slapp fyrr en búið er að slátra öllum fiski úr kvínni. Málið sé bagalegt fyrir fyrirtækið en valdi starfsmönnum þess jafnframt töluverðum heilabrotum. Margsinnis hafi kafarar skoðað kvíar fyrirtækisins en aldrei fundið neitt sem skýrt gæti það magn regnbogasilungs sem sannarlega var á ferðinni í ám og inni á fjörðum á Vestfjörðum. Reyndar veiddist regnbogasilungur í ám í öllum landshlutum í fyrrasumar og haust – en ósannað er hvaðan hann kemur. Þó liggur fyrir að hann kemur allur frá sjóeldi því regnbogasilungur lifir ekki villtur í íslenskri náttúru.

Gatið á kvínni er við botn hennar. Fiskurinn heldur sig hins vegar ofarlega í kvínni sem getur skýrt af hverju hann er ekki allur þegar sloppinn. Um 50.000 seiði voru sett í kvína sem skila áttu 200 tonnum af sláturfiski.

Mynd/OrriMynd/Orri Vigfússon
Sigurður vill koma því á framfæri að með tilkomu fjárfesta og uppbyggingu í greininni sé endurnýjun í búnaði í anda nýrra reglna, en kvíin sem hér um ræðir er úrelt samkvæmt þeim. Sigurður segir að þessar eldri kvíar verði ekki notaðar framvegis eftir að slátrun lýkur úr þeim og segir aðspurður að menn hafi talið óhætt að bíða með endurnýjun þangað til slátrað hefði verið úr þeim – en tvö ár eru liðin síðan seiði voru sett út.

Landssamband veiðifélaga (LV) hefur gagnrýnt sjókvíaeldi harðlega misserum saman og ekki síst varað við slysasleppingum á laxi vegna þeirrar hættu sem stafar að íslenska laxastofninum vegna erfðamengunar. Slík hætta er ekki fyrir hendi vegna regnbogasilungs, en slysasleppingar hans taldar sýna veikleika alls sjókvíaeldis. Félagið hefur kært slysasleppingar á regnbogasilungi til lögreglu. Landssambandið telur atvikið nú svo alvarlegt að það hljóti að leiða til sviptingar rekstrarleyfis Arctic Sea Farm.

Matvælastofnun, eftirlitsaðili fiskeldis, hefur ekki slegið því föstu að málið tengist þeim regnbogasilungi sem veiddist í fyrra. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×