Innlent

Vinstri græn bæta við sig fylgi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. vísir/anton
Vinstri hreyfingin grænt framboð mælist nú með fimm prósentustigum meira fylgi en þeir fengu í nýafstöðnum alþingiskosningum, samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup, og mælast nú með 21 prósenta fylgi.

Þá hefur fylgi Bjartrar framtíðar einnig aukist og segjast tæplega 9 prósent myndu kjósa flokkinn nú, en flokkurinn fékk ríflega 7 prósent í kosningunum. Þá mælist fylgi Framsóknarflokks og Viðreisnar minna en flokkarnir fengu í alþingiskosningunum, og fá báðir hvor um sig um 9 prósent. Viðreisn fékk 10,5 prósent atkvæða í kosningunum og Framsókn 11,5 prósent.

mynd/gallup
Ef tillit er tekið til vikmarka mælist engin breyting á fylgi annarra flokka. Um 28 prósent segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, tæplega 14 prósent Pírata, rúmlega 5 prósent Samfylkinguna og 3 prósent Flokk fólksins. Um 3 prósent nefna aðra flokka og þar af tæplega 2 prósent Dögun.

Liðlega 6 prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og tæplega 7 prósent svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Könnunin var netkönnun sem gerð var dagana 10. til  29. Nóvember. Heildarúrtaksstærð var 5.207 og þátttökuhlutfall var 57,9 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×