Innlent

Vinna gæti farið til spillis verði LÍN-frumvarpið ekki samþykkt fyrir þinglok

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
vísir/valli
Eitt af stórum málunum sem ríkisstjórnin vill klára fyrir þinglok er námslánafrumvarp menntamálaráðherra. Frumvarpið hefur verið afar umdeilt bæði hjá hagsmunaaðilum sem og á stjórnmálasviðinu en undanfarið hefur það verið í vinnslu hjá Allsherjar- og menntamálanefnd þar sem það hefur tekið töluverðum breytingum.

Ein stærsta breytingin og sennilega ein sú mikilvægasta er að námslán verða ekki greidd út sem lán að loknu námsári heldur sem styrkir með fram námi en það þýðir að stúdentar þurfa ekki að reiða sig á yfirdrátt eða önnur lán til þess að framfleyta sér í gegnum skólaárið með tilheyrandi lántökukostnað og vöxtum. 

Breytingartillaga Allsherjar- og menntamálanefndar er dýr og leggur nefndin til að fimm milljarðar verði settir í verkefnið í fjáraukalögum sem einnig þarf að samþykkja á alþingi fyrir þinglok.

Formaður stúdentafélags Háskólans í Reykjavík fagnar breytingum Allsherjar- og menntamálanefndar.

„Okkur lýst persónulega mjög vel á þetta. Það eina sem við hræddumst með að hafa fyrirfram greidda styrki og lán væri ef að þetta myndi valda stressi hjá nemendum að vera ekki að standast þær námsframvindukröfur sem þau sóttu um lán fyrir. En þetta er bara lánað að 22 ECTS einingum. Þannig að þetta gefur svigrúm fyrir um það bil einum áfanga,“ segir Rebekka Rún Jóhannesdóttir, formaður Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík.

Rebekka vonast þó til að aðrar breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu nái fram að ganga. Eins og að þak verði á vöxtum og að doktorsnám verði lánshæft en sjálf hefur hún ekki séð frumvarpið eftir breytingar.

Það styttist til þingloka. Heldur þú að ríkisstjórnarflokkarnir nái þessu í gegnum þingið fyrir þinglok?

„Ég vona það. Ég vona að þetta verði ekki einhver pólitískur áróður. Mér finnst það bara ekki gott þar sem við stúdentar erum búnir að berjast fyrir þessu í mörg ár og núna loksins er verið að svara ákalli okkar og við erum búin að leggja mikla vinnu í þetta í sumar og ég held að þessi vinna muni fara til spillis ef að þetta verður ekki samþykkt núna á alþingi,“ segir Rebekka.


Tengdar fréttir

Stór mál eftir á Alþingi þegar stutt er í þingrof

Sjö stór mál eru eftir á Alþingi þegar nokkrir dagar eru eftir af þinginu. Nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd eru undir miklu álagi með langflest málin undir. Áhyggjur af því að stjórnarandstaðan hleypi LÍN-málinu ekki í gegn.

Stjórnarandstaðan mun koma í veg fyrir LÍN-frumvarp

Stjórnarandstaðan mun koma í veg fyrir að LÍN-frumvarp menntamálaráðherra verði samþykkt enda málið ekki nógu gott. Þetta segir þingmaður Pírata en frumvarpið var afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×