Fótbolti

Vill aflýsa Afríkumótinu vegna Ebólu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Óvíst er hvort Afríkumeistararnir komist á mótið.
Óvíst er hvort Afríkumeistararnir komist á mótið. vísir/getty
Vincent Enyeama, markvörður Nígeríu, biðlar til knattspyrnusambands Afríku að aflýsa Afríkumótinu sem fram fer í Marokkó í janúar vegna Ebóluveirunnar sem herjar á álfuna.

Veiran hefur nú þegar leitt þúsundir manna til dauða síðan hún fór að ganga á milli manna fyrr á þessu ári, og er hætt við að hún gæti smitast hratt út þegar margir eru saman komnir á einum stað eins og á svona stórmóti.

Enyeama hefur áhyggjur af leikmönnum, stuðningsmönnum og dómurum og vill ekki að mótið fari fram fyrr en hættustigið er orðið minna.

„Ég vona svo sannarlega að mótið fari ekki fram þegar horft er til alls fólksins sem mun ferðast um álfuna. En ég stýri ekki knattspyrnusambandinu og tek engar ákvarðanir,“ sagði markvörðurinn eftir markalaust jafntefli Lille og Everton í Evrópudeildinni í gærkvöldi.

„Þetta er mikil áhætta fyrir alla því þegar þú ferð til Afríku eru allir að faðma þig og heilsa þér. Hvað getur þú gert? Þú ert í hættu. En ef mótið fer fram og við komumst þangað þá mun ég spila,“ Vincent Enyeama.

Nígería er ríkjandi Afríkumeistari, en liðið er í vandræðum í undankeppninni og þarf að vinna báða leiki sína sem eftir eru þar og vonast eftir hagstæðum úrslitum bara til að eiga möguleika á að verja titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×