Innlent

Vill að flokkarnir ræði vinnubrögð á þingi

Samúel Karl Ólason skrifar
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. Vísir/Anton
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, vill setja á laggirnar hóp þingmanna úr öllum flokkum þar sem vinnubrögð á Alþingi á komandi kjörtímabili verða rædd. Það verði gert samhliða stjórnarmyndunarviðræðum á næstu dögum.

„Hugmyndin er að allir þeir flokkar sem fengu fulltrúa kosna á Alþingi í kosningunum síðastliðinn laugardag skipi fulltrúa í hóp til þess að ræða saman um verklag varðandi störf þingsins. Þetta starf yrði unnið óháð stjórnarmyndunarviðræðum og með þátttökuí því stefnu flokkarnir að því að bæta vinnubrögð á Alþingi á yfirstandandi kjörtímabili og í framtíðinn,“ sagði Benedikt í bréfi sem hann sendi á formenn í dag.

Bæði verði undirbúningur mála og þingstörfin sjálf rædd innan hópsins.

„Mér heyrist að samhljómur sé um það milli stjórnmálaforingja að nauðsynlegt sé að efla virðingu Alþingis og traust milli þingmanna og þingflokka, óháð því hverjir sitja í stjórn.“

Benedikt leggur til að hver flokkur skipi einn mann í starfshópinn og hann hefji störf í þessari viku og leggi fram tillögur sínar í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×