Innlent

Vilja flýta bólusetningu barna sinna

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Foreldrar hafa í auknum mæli leitað á heilsugæslustöðvar síðustu vikur með börn sín til að fá bólusetningar, eftir nokkra umræðu um bólusetningar barna undanfarið. Sumir hafa óskað eftir því að flýta bólusetningu barna sinna af ótta við mislinga.

„Á flestum stöðum höfum við orðið vör við auknar fyrirspurnir varðandi bólusetningarnar,“ segir Oddur Steinarsson, framkvæmdastjóri lækninga Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir fyrst og fremst um að ræða foreldra sem hafa ekki látið bólusetja börnin sín hingað til en þeir hafi jafnvel verið að koma með börnin sín. „Sem er mjög ánægjulegt að sjá,“ segir Oddur.

Sjá einnig: Rætt um að krefjast bólusetningar hjá skólabörnum

Hann segir erfitt að segja strax til um það hversu mikil aukningin sé í tölum en ljóst sé að hún sé nokkur. Þá eru dæmi um að foreldrar hafi óskað eftir því að flýta bólusetningu gegn mislingum af ótta við sjúkdóminn. Um tíu prósent barna á Íslandi eru í dag ekki bólusett gegn mislingum og segir Oddur það valda sumum foreldrum áhyggjum. Sérstaklega þar sem hluti bólusettra barna geti fengið sjúkdóminn ef faraldur fer af stað.

„Það er mjög mikilvægt að það gangi ekki faraldur því þá gætu einhverjir þeirra, sem eru bólusettir en hafa ekki fengið viðbrögð af bóluefninu, þeir gætu líka sýkst. Þannig það er mjög mikilvægt að halda sjúkdómunum frá landinu, “ segir Oddur.


Tengdar fréttir

Láti foreldra vita um óbólusetta skólafélaga

Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, telur að upplýsa eigi foreldra ef börn sem ekki eru bólusett gangi í skóla með börnum þeirra. Þá hefðu foreldrar það val að setja barnið sitt í annan skóla með hærra hlutfalli bólusettra barna.

Bólusetning hefði bjargað

Kona, sem missti rúmlega eins árs son sinn úr mislingum fyrir tæplega fimmtíu árum síðan, segir ótrúlegt að fólk nýti sér ekki þau úrræði sem nútímalæknavísindi bjóða uppá. Hún telur öruggt að bólusetning gegn mislingum hefði bjargað lífi sonar hennar á sínum tíma.

Vill ekki bólusetja börnin sín

Þriggja barna móðir segist telja betra að sneiða hjá bólusetningum og miðar við slæma reynslu sína af þeim. Foreldrum hér á landi sem vilja hafna bólusetningum fyrir börn sín fjölgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×