Innlent

Vilja ekki að útigangsfólk búi í gistiskýli

Benedikt Bóas skrifar
Gistiskýlið er þyrnir í augum íbúa í miðbænum.
Gistiskýlið er þyrnir í augum íbúa í miðbænum. vísir/anton brink
Samantekt á notkun gisti­skýlisins við Lindargötu 48 sýnir að 18 prósent gesta nýta 70 prósent af öllum gistinóttum.

Í minnisblaði frá velferðarráði Reykjavíkurborgar segir eðlilegt að þeim sem nýta skýlið sem fast heimili verði fundin viðunandi búseta með stuðningi. Skýlið sé hugsað sem neyðarúrræði til skemmri tíma.

Ráðið vill láta kanna kosti og galla þess að nýtt neyðarskýli verði fundið fyrir karla.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins minntu á tillögu sína frá 2015 um að nýta ónotað húsnæði borgarinnar á Víðinesi.

„Fulltrúum meirihlutans hefur gefist nægur tími til að skoða þá framkvæmd sem tillagan felur í sér,“ segir í bókuninni. Meirihlutinn benti á að tillögunni var vísað til meðferðar Velferðarsviðs.

Á vefnum Betri Reykjavík er tillaga um að flytja gistiskýlið af Lindargötu. Það standi við hlið stúdentagarða og gegnt barnaskóla. Öldrunarblokkirnar séu steinsnar frá og fjölmennasti „reitur“ miðborgarinnar hinum megin götunnar.

Íbúi bendir á að samkvæmt gögnum lögreglu hafi hegningarlagabrot þrefaldast, sérrefsilagabrot og verkefni í hverfinu milli áranna 2013 og 2015 og aðstoð við borgara hafi tífaldast. Fleiri benda þó á að samlífið við gistiskýlið hafi gengið vel og hávaðinn sé meiri af stúdentum. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×