Innlent

Vilja að ríkið kaupi Grímsstaði á Fjöllum

Atli Ísleifsson skrifar
Flutningsmenn segja margt mæla með því að ríkið festi kaup á Grímsstöðum á Fjöllum sem eru í þjóðlendujaðrinum.
Flutningsmenn segja margt mæla með því að ríkið festi kaup á Grímsstöðum á Fjöllum sem eru í þjóðlendujaðrinum. V'isir/Pjetur
Tveir þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórninni verði falið að leita eftir samningi um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum og tryggja þannig að jörðin verði þjóðareign.

Fyrri umræða fer fram á Alþingi í dag. Flutningsmenn tillögunnar eru þau Ögmundur Jónasson og Svandís Svavarsdóttir, en sambærileg tillaga hefur tvívegis áður verið flutt á þingi.

Í greinargerð með tillögunni segir að mikil umræða hafi spunnist í tengslum við áform erlendra auðmanna um að festa kaup á Grímsstöðum á Fjöllum og öðru jarðnæði í landinu. „Þetta varð m.a. til þess að um 150 einstaklingar sendu frá sér áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar undir yfirskriftinni Grímsstaðir á Fjöllum verði þjóðareign þar sem skorað var á stjórnvöld að festa kaup á Grímsstöðum á Fjöllum og marka skýra stefnu um ríkiseign á hliðstæðum jörðum.“

Flutningsmenn segja margt mæla með því að ríkið festi kaup á Grímsstöðum á Fjöllum sem eru í þjóðlendujaðrinum. Ríkið eigi þegar tvær jarðir suður af Grímsstöðum, Víðidal og Möðrudal, og um fjórðung Grímsstaða á Fjöllum. „Tekið er undir það sem fram kemur í framangreindri áskorun að æskilegt er að mótuð verði stefna varðandi eignarhald og umráð yfir óbyggðum og þá sérstaklega bújörðum sem teygja sig inn á hálendið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×