Innlent

Við getum ekki verið fílabeinsturn

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Rektor og rokkáhugamaður . Jón Atli er mikill plötusafnari en um þessar mundir er hann að vinna sig í gegnum Talking Heads á spilaranum.
Rektor og rokkáhugamaður . Jón Atli er mikill plötusafnari en um þessar mundir er hann að vinna sig í gegnum Talking Heads á spilaranum. Fréttablaðið/GVA
„Til þess að efla háskólann sem rannsókna- og kennsluháskóla þarf aukið fjármagn. Ég vil fara í samtal við ríkið um fjármögnunina. Það er lykilatriði,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Jón Atli tók við sem rektor háskólans af Kristínu Ingólfsdóttur við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands í gær.

Í kosningabaráttunni um rektorsembættið lagði hann áherslu á að byggja upp alþjóðlega samkeppnishæfan rannsókna- og kennsluháskóla en rauði þráðurinn var fjármögnun Háskólans sem hefur fundið fyrir miklum niðurskurði eftir hrun.

Hann ætlast til að ríkið greiði með öllum nemendum skólans en er tilbúinn að leita lausna til að tryggja viðunandi fjármagn.

„Við gerum ráð fyrir að greitt verði með þeim nemendaígildum sem við höfum hverju sinni. En við útilokum ekki samtal við ríkið um hversu mörg nemendaígildin eru í hverri námsgrein. Ég held að það sé alveg sjálfsagt að ræða þau mál,“ segir hann.

Jón Atli segir að skólinn eigi að vera opinn sem flestum en nefnir að í sumum tilfellum þurfi aðgangspróf til að tryggja gæði námsins. Hann nefnir til dæmis svokölluð A próf í lögfræðinni.

„Það eru þarna ýmis atriði sem þarf að skoða. Hversu margir nemendur eru teknir inn, hversu margir kennararnir eru, hvernig rými við höfum við og hvernig við skipuleggjum skólastarfið. Ef við erum með algerlega óhefta inntöku þá getur það komið niður á gæðunum. Í grunninn er ég fyrir opinn háskóla en við getum hafið samtal um þetta við ríkisvaldið.“

Samfélagsleg ábyrgð Háskóla Íslands er eitthvað sem er Jóni Atla hugleikið og hann segir háskólann þurfa að vera virkan í umræðunni í krafti sérþekkingar innan hans.

„Annað dæmi um samfélagslega ábyrgð má nefna. Þegar hrunið varð tók Háskóli Íslands inn um áramót alla þá sem inn vildu koma ef þeir uppfylltu inntökuskilyrði,“ segir hann.

„Samfélagslegt gildi Háskólans er gríðarlega mikið. Til dæmis er hugvísindasvið ein stærsta menningarstofnunin á Íslandi. Háskóli Íslands er að mestu leyti greiddur af íslenskum skattgreiðendum og getur því ekki verið einhver fílabeinsturn. Við rekum háskólann fyrir samfélagið.“

Í stefnu sinni 2006-2011 setti Háskóli Íslands það markmið að verða einn af 100 bestu háskólum heims en hann komst árið 2011 inn á lista Times Higher Education yfir 300 bestu skóla heims.

„Þetta var langtímamarkmið. Með illa fjármagnaðan skóla er hins vegar vonlaust mál að komast inn á meðal þeirra allra bestu. Það að komast inn á meðal 300 bestu hjá Times Higher er mikil viðurkenning þó svo að aðferðafræðin sé vitaskuld umdeild. Að vera á þessum lista eykur sýnileikann, eykur verðmæti prófgráða frá skólanum og stækkar íslenska menntakerfið“ segir hann.

Fyrir skemmstu greindi Fréttablaðið frá því að upp hefðu komið ritstuldarmál innan Háskólans. Jón Atli lítur svona mál alvarlegum augum.

„Svona mál eru mjög margþætt,“ segir hann. „Það þarf að skoða hvert tilvik fyrir sig. Fyrst og fremst er nemandinn ábyrgur fyrir sínum verkum. Verkefni háskólans er einkum að kenna nemendum að meðhöndla heimildir með ábyrgum hætti. Það er mikilvægt að leysa slík mál sem fyrst innan þeirrar deildar sem við á og að leiðbeinendur axli ábyrgð.. Ábyrgð háskólans er mikil í svona máum og við verðum að taka þau alvarlega.“

Þá hefur það gert vart við sig að fræðimenn við háskólann hafi greitt fyrir birtingar í svokölluðum gervifræðiritum.

„Vísindin eða greinarnar geta staðið fyrir sínu þó þær séu birtar á vettvangi sem er kannski sá kröfuharðasti í heimi eða að höfundar standi straum af birtingu efnis,“ segir hann. „Almennt í okkar kerfi er það þannig að það eru fleiri rannsóknastig gefin fyrir greinar sem birtast í tímaritum þar sem er hár áhrifastuðull eða útgefandi gerir strangar faglegar kröfur. Við mat á einstökum birtingum þarf að meta sérhvert tilvik út af fyrir sig.“

Hlébarðabuxur í pönkinu

Jón Atli er mikill tónlistaráhugamaður en hann ólst upp við að hlusta á Rolling Stones og Bítlana. „Ég fékk einu sinni spurninguna í Harmageddon: Bítlarnir eða Rolling Stones? Þá sagði ég bara að það væri ekki hægt að gera upp á milli þeirra,“ segir Jón. Hann tók einnig tímabil í pönksenunni en segist ekki hafa verið sá allra versti. „Ég gekk um í hlébarðabuxum og var mikil Clash-aðdáandi, Sex Pistols og allt það. Ég var samt ekki sá allra versti, ekkert að þefa límið eða neitt þannig,“ segir Jón Atli og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×