Innlent

Vetrarsólstöður á morgun, 22. desember

Sólin verður á lofti í rúmar fjórar klukkustundir á Þingvöllum á morgun, stysta dag ársins.
Sólin verður á lofti í rúmar fjórar klukkustundir á Þingvöllum á morgun, stysta dag ársins.
Vetrarsólstöður verða í ár á morgun, 22. desember, nánar tiltekið klukkan hálfsex að morgni, samkvæmt upplýsingum Almanaks Háskóla Íslands. Í Reykjavík verður birting þennan stysta dag ársins klukkan 10.03 en myrkur klukkan 16.49. Sólris verður í Reykjavík á morgun klukkan 11.22 en sólarlag klukkan 15.30.

Þorsteinn Sæmundsson, annar ritstjóra almanaksins, segir breytilegt eftir öldum hvaða dag ársins vetrarsólstöður ber upp en þau geti orðið frá 20. til 23. desember. Það séu aðallega hlaupárin sem rugli þessu. Algengasta dagsetningin á þessari öld er 21. desember en á síðustu öld var það 22. desember, að sögn Þorsteins.

Vetrarsólstöður tákna að eftir morgundaginn fer daginn að lengja, reyndar aðeins um hænufet fyrstu dagana. Þannig verður birtutíminn á aðfangadag búinn að lengjast um þrjár mínútur í Reykjavík. Mánuði síðar verður birtutíminn búinn að lengjast um eina og hálfa klukkustund.

Á Akureyri verður sólris á morgun klukkan 11.38 en sólarlag klukkan 14.44, á Norðfirði rís sólin klukkan 11.08 en sest klukkan 14.38 en stystur verður dagurinn hérlendis í Grímsey á morgun. Þar kemur sólin upp klukkan 12.03 en sest klukkan 14.18, samkvæmt Almanaki Háskólans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×