Fótbolti

Verður Suárez bitlaus eftir bannið?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luis Suárez
Luis Suárez Vísir/Getty
Knattspyrnuleikir í Evrópu gerast ekki stærri en El Clásico. Þar mætast tvö af stærstu og bestu liðum heims; Real Madrid og Barcelona. Fyrsta viðureign þessara fornu erkifjenda fer fram á laugardaginn klukkan 16.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

„Þetta er bara knattspyrnuveisla. Þetta er það geggjaðasta sem sést í fótboltanum á hverju tímabili,“ segir Guðmundur Benediktsson, knattspyrnulýsandi á Stöð 2 Sport, um leikinn við Fréttablaðið, en Gummi Ben mun að sjálfsögðu lýsa þessum stórleik.

Sálfræðistríðið hefur verið í fullum gangi fyrir leikinn; Börsungar þar duglegri að láta gamminn geisa en óvinir þeirra úr höfuðborginni. Fréttum fyrir leikinn fækkaði reyndar alveg um 30 prósent eða svo þegar José Mourinho lét af störfum sem þjálfari Real. Honum leiddist aldrei að skjóta á Börsunga, reyndar leiðist honum bara ekkert að tala yfirhöfuð.

Forseti brasilíska félagsins Santos lét heyra í sér í vikunni og sagði að Neymar hefði kosið sjálfur að spila fyrir Barcelona frekar en Real Madrid. Hjálp í sálfræðihernaðinum úr óvæntri átt en vel þegin.

Suárez, Suárez, Suárez

Allt í kringum El Clásico að þessu sinni snýr að úrúgvæska framherjanum Luis Suárez sem Barcelona keypti fyrir fúlgur fjár frá Liverpool í sumar. Það vissi að þar væri á ferð strákur sem á við erfiðleika að stríða, en það bjóst nú væntanlega við að hann væri búinn að spila leik fyrir félagið áður en hann gerði endanlega allt vitlaust í knattspyrnuheiminum.

Þeir sem eru með módem heima hjá sér og hafa internet-aðgang eða lesa dagblöð vita vel að Luis Suárez hefur verið í löngu keppnisbanni eftir að smakka ítalskt á HM í Brasilíu í sumar.

Luis Enrique, þjálfari Barcelona, er búinn að gefa það út að Suárez muni koma við sögu í leiknum. Ekki vænkast hagur mótherja Barcelona þegar Messi, Neymar og Suárez verða komnir á fullt, en það er einmitt spurningin. Hversu mikið getur Luis Suárez gefið af sér í leiknum?

Það er ekkert grín að spila alvöru fótboltaleik eftir fjögurra mánaða frí og hvað þá einn stærsta leik ársins. Munurinn er vissulega sá að hann er ekki að koma úr meiðslum og þurfti enga endurhæfinu; Suárez hefur verið að æfa og spila æfingaleiki allan tímann.

Deilt hefur verið um í hversu góðu formi Suárez er, en hann var úthrópaður silakeppur af spænskum fjölmiðlum þegar hann spilaði fyrsta æfingaleikinn.

„Suárez er ekki í yfirvigt. Alls ekki. Þetta eru bara þið, fjölmiðlarnir. Hann er í eðlilegri þyngd eins og hjá Liverpool,“ sagði Enrique, sem var ekki skemmt.

Cristiano Ronaldo fagnar marki á móti Liverpool.Vísir/Getty
Auðveldari vika hjá Barca

Bæði Barcelona og Real Madrid spiluðu í Meistaradeildinni í vikunni, og hefur Cristiano Ronaldo látið óánægju sína í ljós með að El Clásico-fari fram á laugardegi þegar Real spilaði á miðvikudegi.

Vikan var nefnilega öllu auðveldari fyrir Barcelona sem mætti Ajax á þriðjudaginn og það á heimavelli. Luis Enrique vildi ekki viðurkenna að hann væri að hvíla menn fyrir El Clásico, en samt voru Jérémy Mathieu, Sergio Busquets og Gerard Pique hvíldir. Þá tók Enrique Messi, Neymar og Iniesta út af við fyrsta tækifæri.

Real Madrid þurfti að spila stórleik í sínum riðli gegn Liverpool á Englandi. Það vann auðveldan sigur, en fékk degi minna í hvíld, þurfti að fljúga aftur heim og spila á sínu besta liði.

Múrað fyrir – skora mikið

Bæði Barcelona og Real Madrid hafa verið þekkt fyrir öflugan sóknarleik undanfarin ár og það hefur ekki breyst. Luis Enrique hefur aftur á móti látið sína menn í Barcelona prófa nýjan hlut; að fá ekki á sig mark. Þegar átta umferðum er lokið í deildinni er Barcelona búið að vinna sjö leiki, gera eitt jafntefli, skora 22 mörk og fá ekki á sig eitt einasta.

Þar munar mikið um komu franska varnarmannsins Jérémy Mathieu frá Valencia; miðvörður af gamla skólanum sem gerir þetta einfalt. Engar krúsídúllur; bara stendur sína vakt og sparkar boltanum burt ef það eru vandræði. Hann og Javier Mascherano mynda öflugt miðvarðapar.

Luis Suarez.Vísir/Getty
Real Madrid hefur aðeins fengið á sig rétt rúmt mark í leik að meðaltali, en skorar eins og enginn sé morgundagurinn. Þrjátíu mörk komin í átta leikjum og er annað hægt með svona stormsveit fyrir framan miðlínuna? Ronaldo skorar í hverjum leik og hinn gríðarlega vanmetni Karim Benzema blómstrar með aðstoð Toni Kroos og James Rodríguez.

Barca vinnur með Suárez

„Ég myndi láta Luis Suárez byrja leikinn,“ segir Guðmundur Benediktsson, beðinn um að spá í spilin fyrir þennan stórleik.

„Ég myndi vera með Messi í holunni, Suárez frammi með Neymar vinstra megin og Ivan Rakitic hægra megin. Busquets og Iniesta á miðjunni, Xavi er búinn,“ segir Guðmundur sem vill sjá Real-liðið óbreytt fyrir utan að Frakkinn ungi Rafael Varanë þarf að víkja fyrir Sergio Ramos í vörninni.

Lionel Messi fær góða þjónustu á æfingu Barcelona.Vísir/Getty
Guðmundur telur Barcelona sigurstranglegra þrátt fyrir að vera á útivelli. Það hefur reyndar unnið níu af síðustu sautján leikjum á Bernabéu og þekkir því vel að vinna í Madríd. Möguleikar Barcelona liggja þó í því að spila Suárez sem mest.

„Barcelona vinnur með Suárez í byrjunarliðinu. Ég held að pressan fremst á vellinum verði bara of góð með hann þarna því hann getur hlaupið endalaust. Þarna er Barcelona líka komið með mann sem getur leitt línuna. Hann býr til pláss fyrir Messi sem hefur verið í erfiðleikum með að finna það undanfarið. Varnarmennirnir geta bara hópað sig í kringum hann,“ segir Guðmundur, en Real-liðið segir hann sterkara á miðjunni.

„Eftir komu Toni Kroos er Real með sterkari miðju. Hann er alveg frábær, en hann og Modric spila mjög vel saman með Isco og James eiginlega á köntunum í 4-4-2 eins og á Anfield. Þar fékk Ronaldo bara að leika lausum hala. Það hentar honum líka ágætlega,“ segir Guðmundur Benediktsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×