Lífið

Verð vonandi ekki drepinn í Marokkó

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson leikur í fleiri þáttum en gert var ráð fyrir í upphafi.
Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson leikur í fleiri þáttum en gert var ráð fyrir í upphafi. mynd/aðsend
„Ég er mjög ánægður, þetta er mikil viðurkenning þar sem ég átti upphaflega bara að leika í fyrstu sex þáttunum,“ segir leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson. Hann leikur Tómas, einn af lærisveinum Jesú, í nýrri sjónvarpsseríu sem ber nafnið A.D.

Hann er á leið til Marokkó þann 7. febrúar næstkomandi, þar sem höfundar þáttanna hafa skrifað Jóhannes Hauk inn í fleiri þætti, sem þýðir að okkar maður hlýtur að hafa verið að gera góða hluti. „Jú, þetta sýnir að maður hefur verið að gera eitthvað rétt.“

Hann dvaldi í Marokkó í þrjá mánuði fyrir áramót þar sem hann lék í fyrstu sex þáttunum en nú hefur komið í ljós hann kemur fram í tveimur þáttum í viðbót í það minnsta. 

„Aðstandendur svona sjónvarpsþátta gera þetta oft, sjá hvernig hlutirnir ganga og skrifa persónur meira inn í þættina ef það hentar og gengur vel. Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég fékk handritið að nýju þáttunum sem ég var skrifaður inn í, að ég er með töluvert fleiri línur í þessum þáttum en í fyrstu sex. Það er áskorun að leika á ensku og verður erfitt en ég er þakklátur fyrir tækifærið,“ útskýrir Jóhannes Haukur.

Í heildina verða þættirnir tólf og veit Jóhannes Haukur fyrir víst að hann kemur fram í allavega átta þáttum. „Ég veit ekki meira en það gæti alveg verið að ég yrði í fleiri þáttum, það kemur í ljós. Það fer auðvitað eftir því hvort ég verð drepinn í seríunni, það er alltaf það fyrsta sem maður tékkar á þegar maður fær nýtt handrit.“

Hér er Jóhannes Haukur ásamt fleiri lærisveinum.Mynd/Aðsend
Mikið er lagt í þættina og hefur verið byggð heil borg í eyðimörkinni í Marokkó. „Þeir eru búnir að byggja Jerúsalem, þetta er líklega ein af stærstu frístandandi leikmyndum sem til eru í heiminum í dag eða svo segja framleiðendurnir.“

Þættirnir fara í sýningu á NBC um páskana og verða sýndir klukkan 21.00 á sunnudögum þar í landi. „Ég veit að íslensk sjónvarpsstöð hefur verið reyna tryggja sér sýningarréttinn en veit þó ekki meira um það að svo stöddu,“ bætir Jóhannes Haukur við. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×