Innlent

Vegagerðin hefur áður fengið athugasemdir

Sveinn Arnarsson skrifar
Vegagerð við Reykjanesbraut. Stór hluti útgjalda Vegagerðarinnar er kaup á verktakavinnu.
Vegagerð við Reykjanesbraut. Stór hluti útgjalda Vegagerðarinnar er kaup á verktakavinnu. Fréttablaðið/Ernir
Vegagerðin hefur áður fengið athugasemdir um fjölda tilvika þar sem reglur um útboðsskyldu eða samþykktarferli reikninga voru ekki virtar. Þetta segir Sveinn Arason ríkisendurskoðandi. Kastljós fjallaði ítarlega um brotalamir í útboðsmálum Vegagerðarinnar í síðustu viku.

Ekkert formlegt eftirlit er með útboðsmálum hins opinbera. Ný tilskipun ESB tekur á þessum vanda og skikkar aðildarlönd og ríki innan EES að setja á stofn eftirlit með opinberum samningum.

Sveinn segir eftirlit Ríkisendurskoðunar tvíþætt, annars vegar í gegnum reglubundna fjárhagsendurskoðun og hins vegar með stjórnsýsluúttektum. „Við fjárhagsendurskoðun er jafnan kannað hvort stofnanir noti rammasamninga Ríkiskaupa og hvort fjárhæðir fara yfir viðmiðunarmörk útboðsskyldu.“

Sveinn Arason
„Við fjárhagsendurskoðun hjá Vegagerðinni vegna ársins 2013 gerði Ríkisendurskoðun athugasemd við nokkur tilvik þar sem reglur um útboðsskyldu eða samþykktarferli reikninga voru ekki virtar,“ segir Sveinn.

„Engin stofnun fer beinlínis með það hlutverk að vakta opinbera samninga þannig að farið sé að lögum um opinber innkaup við meðferð opinbers fjár,“ segir Halldór Ó. Sigurðsson, forstjóri Ríkiskaupa. „Visst aðhald er þó að finna í ákvæðum laga um opinber innkaup. Þar er kveðið á um kærunefnd útboðsmála og fjallað um gildi samninga, óvirkni, önnur viðurlög og skaðabætur. Samkvæmt þessum ákvæðum er eftirlitið í dag í höndum fyrirtækja á markaði. Þá einkum fyrirtækja sem taka þátt í útboðum. Þeim fyrirtækjum eru tryggð ákveðin úrræði með þeim, svo sem að skjóta málum sínum til kærunefndar útboðsmála. Þó má segja að hlutverk Samkeppniseftirlitsins komi að vissu leyti inn á þetta svið einnig.“

Halldór bendir á að á döfinni sé lagabreyting sem muni binda enda á þetta eftirlitsleysi. „Í nýlegum samþykktum um opinber innkaup eru sérstök ákvæði um vöktun opinberra samninga. Búast má við að tilskipanir þessar verði innleiddar í íslenska löggjöf árið 2017. Vonir standa til að það verði fyrr.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×