Lífið

Vaxin upp úr krúttinu

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Rökkurró gaf út plötu seinast árið 2010.
Rökkurró gaf út plötu seinast árið 2010. MYND/HÉÐINN EIRÍKSSON
„Við erum engin krútt lengur,“ segir Hildur Kristín Stefánsdóttir, söngkona hljómsveitarinnar Rökkurró en þau gefa út plötuna Innra í byrjun næstu viku, nýja plötu með nýja stefnu.

„Það eru svo langt síðan við gáfum seinustu plötuna út, fjögur ár, og við áttuðum okkur eiginlega á því að okkur langaði ekki að gera sömu tónlistina. Það er meiri elektroník í nýja dótinu og ekkert krútt eins og hefur verið áður. Við erum vaxin upp úr krúttinu,“ segir Hildur létt í bragði.

Hljómsveitin efnir til forhlustunarteitis á Kex Hostel í kvöld þar sem allir eru velkomnir. Þar verður hægt að hlusta á nýju plötuna og sjá nýja tónlistarmyndband þeirra við lagið Blue Skies. Myndbandið er svokallað „one take“ myndband þar sem öll atburðarrásin gerist í einni töku og ekkert er klippt.

„Við fengum til liðs við okkar Sigurjón Bjarna, sem er að læra sviðssetningu í LHÍ en hann leikstýrði myndbandinu og sá um hugmyndavinnu. Við þurftum að æfa þetta rosa mikið því það má ekkert klúðrast,“ segir Hildur sem segist hafa barist við að halda andliti í tökunum. „Þetta gekk ógeðslega vel og við enduðum á því að nota bara fyrstu tökuna. Hún var alveg málið.“ 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×