Lífið

Var viss um að hún væri stödd í paradís

Guðmann Þorvaldsson ásamt hópnum sem kom til hans á vegum Meet the Locals.
Guðmann Þorvaldsson ásamt hópnum sem kom til hans á vegum Meet the Locals. Vísir
„Þetta var bara bráðskemmtilegt, þau voru yfir sig hrifin af þessu. Það er satt að maður er manns gaman, en það fyllir mann líka stolti að sýna hvað við eigum á Íslandi. Það er nefnilega ekkert sjálfgefið,“ segir Guðmann Þorvaldsson sem er búsettur á Eskifirði.

Guðmann tók á móti litlum hópi erlendra ferðamanna og bauð þeim í kvöldmat í gegnum verkefnið Meet the Locals, eða Hittu heimamenn. Verkefnið hefur svo sannarlega slegið í gegn undanfarið og segir hann Austfirðinga duglega að taka þátt.

„Ég reddaði mér hákarli og harðfiski og náði svo í plokkfisk á kaffihúsinu hérna í bænum, því það þarf allur matur að koma frá viðurkenndu eldhúsi. Ég leyfði þeim síðan að skoða allt hér heima og taka myndir eins og þau vildu áður en við borðuðum,“ greinir hann frá.



Guðmann segir hópinn hafa verið yfir sig hrifinn af plokkfiskinum og harðfiskinum. „Ég hélt þau myndu kannski spýta hákarlinum út úr sér, en þau líktu honum bara við sterkan ost og fannst hann alls ekkert svo slæmur,“ segir hann.

Auk þess að fá erlendu ferðamennina í mat keyrði hann með þá um bæinn og nágrennið og sýndi þeim umhverfið.

„Svo vorum við svo heppin að um kvöldið voru tónleikar hér með Ragga Bjarna, Bubba og fleirum sem þau skelltu sér á. Ég gat ekki betur séð að þeim fyndist þetta stórkostlegt,“ segir Guðmann og bætir við: „Ein þeirra spurði mig: Hvar er Eva? og ég skildi ekkert. Svo ég spurði hana hvað hún meinti. Hún svaraði þá að hún hefði hreinlega haldið að hún væri í paradís.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×