Innlent

Vantar tekjur til að standa undir þjónustu við ferðamenn

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Reykjavíkurborg hefur ekki notið aukins ferðamannafjölda í borginni í formi hærri skatttekna. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vill að Reykjavík fái gistináttagjald á reykvískum hótelum til að standa straum af kostnaði vegna þjónustu við ferðamenn.

Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið ævintýri líkastur. Ef spár ganga eftir munu tvær milljónir ferðamanna sækja landið heim árið 2018. Mikil aukning ferðamanna hefur í för með sér aukinn kostnað fyrir íslensk sveitarfélög vegna þjónustu við þá. Vegna ferðamannastraumsins og þess kostnaðar sem sveitarfélögin bera vegna hans hafa vaknað spurningar um hvort sanngjarnt sé að sveitarfélög, eins og Reykjavík, fái auknar skatttekjur til að mæta kostnaði vegna þjónustu við ferðamenn.

Auk sorphirðu og viðhalds helstu innviða má nefna hér sundlaugar Reykjavíkurborgar en ferðamenn sem sækja borgina njóta þess að reykvískir skattgreiðendur niðurgreiða sundferðir þeirra enda greiða þeir sama verð fyrir miðann í laugina og íbúarnir.

Hafa ekki séð auknar skatttekjur

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að borgin hafi ekki séð auknar skatttekjur vegna ferðamannastraumsins. „Við sjáum það ekki eins mikið í útsvarinu eins og við hefðum getað búist við. Skatttekjur af ferðamönnum renna fyrst og fremst til ríkisins í formi virðisaukaskatts og gistináttagjalds,“ segir Dagur.

Hann segir eðlilegt að Reykjavíkurborg fái gistináttagjaldið til að mæta auknum kostnaði vegna þjónustu við ferðamenn.

„Við höfum fært rök fyrir því að Reykjavík og sveitarfélögin fái gistináttagjaldið, sem um allan heim eru sveitarfélagaskattar, til að standa straum af meiri umhirðu, innviðum og öðru sem við þurfum að standa undir.“

Skattkerfisbreytingar skoðaðar í samráði við fjármálaráðuneytið

„Við vitum að sveitarfélögin bera mikinn kostnað af ferðaþjónustunni án þess að fá sambærilegar tekjur og renna í ríkissjóð. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða í samráði við fjármálaráðuneytið og við erum að skoða þessi mál,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra.

Borgarstjóri segir vel geta hugsað sér fyrirkomulag þar sem gistináttagjaldið skiptist milli ríkis og sveitarfélaga. „Við erum alveg opin fyrir öllum útfærslum á því. Það er markmiðið sem skiptir mestu máli. Þar sem álagið er, þar sem fjárfesta þarf í innviðum, veita þjónustu og leggja pening í rekstur, þar komi tekjurnar á móti,“ segir Dagur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×