Innlent

Vanmat hentugleika lendingarstaðarins

Samúel Karl Ólason skrifar
Atvikið átti sér stað skammt frá Kirkjubæjarklaustri.
Atvikið átti sér stað skammt frá Kirkjubæjarklaustri. Vísir/Vilhelm
Fisflugvél hlekktist á í lendingu við Ásgarð nærri Kirkjubæjarklaustri þann 27. maí 2012. Þar fór vélhjólaíþróttakeppni fram og til stóð að lenda vélinni á túni við bæinn. Flugmanninum fannst hraðinn of mikill í lendingunni og ákvað að hætta við. Það tókst ekki og vélin hafnaði á girðingu og stöðvaðist.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa segir að túnið við Ásgarð sé mishæðótt og að lendingarsvæðið hafi mælst 320 metrar að lengd. Flugmaðurinn fór fyrst yfir hús við upphaf lendingarsvæðisins og því var aðflugið hátt. Fisvélin snerti túnið fyrst þegar hún var komin um 200 metra inn á lendingarsvæðið.

Þegar flugmaðurinn ákvað að hætta við lendingu voru líklega um 120 metrar eftir af lendingarsvæðinu. Fisflugmaðurinn hafði ekki lent þarna áður og hafði ekki leyfi landeiganda til lendingar en gerði ráð fyrir að það væri í lagi þar sem bílum var lagt á þessu svæði.

Í niðurstöðu skýrslunnar segir að lendingarstaðurinn hafi ekki verið heppilegur og þá sérstaklega sé tekið tillit til þess að meðvindur hafi verið í lendingunni. Mat RNSA er að fisflugmaðurinn hafi vanmetið hentugleika lendingarsvæðisins. Þegar hann hafi ákveðið að hætta við lendinguna hafi það verið of seint. Túnið hallaði upp á við, fisið snerti túnið og erfitt hafi verið að ná flugtakshraða á ný.

Samantekt rannsóknarnefndarinnar má lesa hér og lokaskýrslu má skoða hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×