Fótbolti

Van Gaal: Svara ekki fréttum sem eru skáldskapur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Louis van Gaal þarf að svara sömu spurningunum aftur og aftur.
Louis van Gaal þarf að svara sömu spurningunum aftur og aftur. vísir/getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, þurfti einu sinni sem oftar að svara spurningum um framtíð sína á Old Trafford þegar hann ræddi í dag við blaðamenn fyrir leik liðsins gegn Sunderland um helgina.

Enskir fjölmiðlar hafa greint frá því að José Mourinho sé í samningaviðræðum við Manchester United og þá á hann að hafa sagt vinum sínum að hann taki við starfinu af Van Gaal í sumar.

Manchester United hefur ekki hafnað þessum fréttaflutningi en athygli vakti að forráðamenn félagsins voru fljótir að neita fyrir áhuga sinn á Pep Guardiola þegar hann var orðaður við United í janúar.

„Ég hef sagt margoft að margir fjölmiðlar, þó ekki allir, skálda fréttir. Ég svara ekki fyrir skáldskap. Þetta er stefna félagsins og ég er sammála henni,“ sagði Van Gaal á blaðamannafundinum í dag.

„Þetta er ekki spurning sem þið eigið að spyrja mig að heldur stjórn Manchester United. Ég er með samning hér til þriggja ára.“

Aðspurður hvort hann telji fréttir um framtíð sína búnar til af fjölmiðlum alveg frá grunni svaraði Louis van Gaal einfaldlega: „Já.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×