Íslenski boltinn

Valorie rekin sem þjálfari Selfoss

Anton Ingi Leifsson skrifar
Valorie á hliðarlínunni fyrr í sumar.
Valorie á hliðarlínunni fyrr í sumar. vísir/anton
Valorie Nicole O´Brien hefur verið rekin sem þjálfari Selfoss í Pepsi-deild kvenna, en þetta herma heimildir Vísis. Þetta var svo staðfest á vef sunnlenska.is í kvöld af formanni knattspyrnudeildar Selfoss.

Valorie tók við liðinu fyrir tímabilið af Gunnari Borgþórssyni sem einbeitti sér að þjálfun karlaliðsins, en hann er einnig yfirþjálfari yngri flokka á Selfossi.

Gengi liðsins í sumar hefur verið dapurt og eftir 1-1 jafntefli gegn FH í Kaplakrika í kvöld er liðið komið í fallsæti, en þrír leikir eru eftir af mótinu.

Liðið er stigi á eftir KR sem er í áttunda sætinu með tólf stig, tveimur stigum á eftir Fylki sem er í sjöunda sætinu með þrettán stig og þremur á eftir FH sem er í sjötta sætinu með fjórtán stig.

Valorie var ekki á bekknum né í liðinu hjá Selfoss í dag, en hún hefur spilað þrjá leiki með liðinu í sumar. Þegar þetta er skrifað hefur ekki verið send út nein fréttatilkynning til fjölmiðla svo ekki átti að fara hátt með málið.

Ekki hefur náðst í formann knattspyrnudeildar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, en þegar Vísir náði tali af varaformanni deildarinnar vildi hann ekkert tjá sig um málið. Hann benti á formanninn sem hefur ekki svarað símtölum íþróttadeildar, en eins og stendur að ofan var þetta staðfest svo á vef sunnlenska í dag.

Valorie var boðið að halda áfram að spila með liðinu, en hún á að hafa afþakkað það boð. Guðjón Bjarni Hálfdánarson, aðstoðarþjálfari liðsins, tekur við liðinu og stýrir því út tímabilið.

Gunnar Borgþórsson var mættur á bekkinn hjá Selfossi í dag og hjálpaði liðinu að ná í stig í Kaplakrika, en meira um þann leik má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×