Fótbolti

Váldes leggur hanskana á hilluna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Váldes er leikjahæsti markvörðurinn í sögu Barcelona.
Váldes er leikjahæsti markvörðurinn í sögu Barcelona. vísir/getty
Víctor Valdés, fyrrverandi markvörður Barcelona, hefur lagt hanskana á hilluna samkvæmt frétt El Mundo Deportivo.

Hinn 35 ára Valdés yfirgaf Middlesbrough eftir síðasta tímabil. Hann hafði úr nokkrum tilboðum að velja í sumar en ákvað að hætta og einbeita sér að framleiðslu sjónvarpsefnis.

Valdés lék í 12 ár með aðalliði Barcelona, alls 535 leiki. Hann vann allt sem hægt er að vinna með Barcelona, þ.á.m. spænsku úrvalsdeildina sex sinnum og Meistaradeild Evrópu í þrígang.

Valdés yfirgaf Barcelona sumarið 2014 og samdi við Manchester United í janúar 2015. Hann lék aðeins tvo leiki fyrir United og lenti upp á kant við Louis van Gaal, knattspyrnustjóra liðsins. Spánverjinn var lánaður til Standard Liege í Belgíu á þarsíðasta tímabili.

Á síðasta tímabili lék Valdés með Middlesbrough í ensku úrvalsdeildinni. Þrátt fyrir að liðið félli hélt Valdés marki sínu hreinu í átta af 28 deildarleikjum sem hann spilaði.

Valdés lék 20 leiki fyrir spænska landsliðið og varð heims- og Evrópumeistari með því. Þá lék hann 12 leiki fyrir landslið Katalóníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×