Innlent

Vaknaði við gassprengingu: Rithöfundurinn segir þetta skrýtna upplifun

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Þórarinn býr í íbúð skáhallt á móti þeirri sem sprenging varð í í nótt.
Þórarinn býr í íbúð skáhallt á móti þeirri sem sprenging varð í í nótt. Vísir/Valli/Spreepicture
Slökkvilið var kallað að blokk í Berlín nú snemma í morgun vegna elds og reyks í einni íbúð hússins. Í ljós hefur komið að eldurinn stafaði af gassprengingu í íbúðinni. Talið er að íbúi hafi framkallað hana til þess að taka eigið líf en lögregla hefur ekki fengist til þess að staðfesta það. Samkvæmt þýskum fjölmiðlum segja íbúar hússins manninn hafa verið í sjálfsvígshugleiðingum deginum áður. Hann lést í sprengingunni.

Þórarinn Leifsson, rithöfundur, vaknaði við sprenginguna en hann býr í húsinu sem stendur skáhallt á móti því sem sprengingin varð. „Hálft húsið er alveg ónýtt. Þrjár efri hæðirnar ónýtar,“ segir hann og lýsir aðstæðum í götunni í dag þegar Vísir náði af honum tali. „Þetta var mjög skrýtin upplifun.“

Þórarinn setti færslu á Facebook í dag þar sem hann lýsir atvikinu. „Vaknaði í nótt við torkennilega dynki og raddir sem hrópuðu „Allahu akbar“,“ skrifar Þórarinn. Hann segist í fyrstu hafa talið að um ættarmót sem fór úr böndunum hafi verið að ræða. „Ég var heila mínútu að koma mér fram úr og sá þá hvernig svartur mökkur stóð út úr fjórðu hæð í húsinu skáhallt á móti okkur. Á götunni fyrir neðan var hópur arabískra kvenna og karla með lítil börn í fanginu, allir í miklu uppnámi eins og gefur að skilja. Nú hefur komið í ljós að einhver maður ákvað að taka líf sitt með gasi. Sprenging út frá því var nógu öflug til að veggir féllu saman og rúður brotnuðu. Þetta grandaði ekki bara þessum eina ólukkufugl, heldur slasaði tíu aðra manneskjur, sex eru enn á sjúkrahúsi, þar af einn mikið slasaður. Rauði Krossinn innar í götunni tók að sér átján manneskjur sem komast ekki heim til sín í bili.“

Vinur Þórarins og konu hans, Auðar Jónsdóttur, rithöfunds, gisti hjá þeim hjónum í nótt. Hann hafði lagt bílnum sínum við húsið sem sprengingin varð í. „Ég plataði hann til að skutla annarri vinkonu okkar heim þannig að hann fékk stæðið ekki aftur,“ útskýrir Þórarinn. Síðan í morgun hafði bílinn sem lagt hafði verið í stæði vinarins verið dreginn á brott. „Ég dró hann út í morgun til að sýna honum að ég hefði bjargað bílnum hans.“

Staðfest hefur verið að efstu þrjár hæðir hússins eru ónýtar og að maðurinn í íbúðinni hafi opnað fyrir gas í mjög litlu herbergi. Þrátt fyrir það er sjálfsmorðstilraun enn óstaðfest. Lesa má um málið hér og hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×