Fastir pennar

Útganga í uppnámi

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Breskur dómstóll hefur úrskurðað að breska þingið eigi síðasta orðið um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þjóðaratkvæðagreiðslan um útgöngu hefði einungis verið ráðgefandi.

Ljóst er að um er að ræða erfið tíðindi fyrir Theresu May forsætisráðherra. Hún hefur legið undir ámæli fyrir einstrengingslega afstöðu í málinu, en margir þingmanna, meira að segja úr hennar eigin þingflokki, hafa gagnrýnt hana fyrir að hafa vanrækt allt samráð við þingið í útgönguferlinu. Í gær sagði Steven Phillips, einn hennar manna, af sér þingmennsku vegna þessa. Vekur það nokkra athygli en Phillips var einarður stuðningsmaður útgöngu.

May hefur sagt að dómnum verði áfrýjað til hæstaréttar Bretlands, en þar verður málið tekið fyrir í desember. Líklegt er að hún eigi erfiða daga fram að því og róðurinn mun ekki léttast fari svo að hæstiréttur staðfesti niðurstöðu undirréttarins.

Margir kunna að spyrja sig hvers vegna May vilji ekki að málið komi til kasta þingsins. Þingmenn hljóti að virða þjóðarviljann. Málið er hins vegar ekki svo einfalt. Sagt er að sennilega séu tveir þriðju hlutar þingmanna fylgjandi áframhaldandi aðild. Við það bætist að í Bretlandi eru einmenningskjördæmi og þingmenn því allt eins líklegir til að hlusta á raddir kjósenda í eigin kjördæmi. Óhætt er að segja að stemmingin gagnvart Brexit hafi breyst talsvert frá því að atkvæðagreiðslan var haldin í sumar.

Sennilegt er því að þingheimur reyni sitt til að standa í vegi fyrir útgöngu, og mögulega væri besta mögulega niðurstaðan fyrir May sú að þingið samþykkti útgöngu með einhvers konar skilyrðum. Útganga gæti til dæmis verið háð áframhaldandi aðgangi að innri markaði ESB, og tilteknum málamiðlunum í innflytjendamálum.

Versta niðurstaðan fyrir forsætisráðherrann væri sú að hún missti stjórn á málinu og yrði nauðugur sá kostur að boða til kosninga næsta vor. Um það er nú talað af alvöru í fyrsta skipti eftir að hún tók við.

Breskir ráðamenn standa því frammi fyrir erfiðu vali. Þjóðin valdi að ganga úr Evrópusambandinu. Þrátt fyrir allt var það þó einungis rétt ríflega fjórðungur landsmanna (ríflega þriðjungur kosningabærra) sem kaus með útgöngu. Þjóðin er því klofin í herðar niður í málinu.

May þarf því að feta einstigi þar sem henni tekst að ganga úr Evrópusambandinu án þess að skaða hagsmuni Breta um of og án þess að auka enn á spennuna sem ríkir milli þeirra sem vilja út og þeirra sem vilja vera inni.

Það er vandratað og ekki eru öll kurl komin til grafar.

Við Íslendingar fylgjumst spenntir með af hliðarlínunni. Ekki bara getur þessi breska harmsaga haft mikið að segja um hvernig framtíðaraðild okkar að evrópska innri markaðnum verður háttað, heldur getur framganga May, ef vel tekst til, verið leiðarljós um hvernig á að sameina sundraða þjóð og sætta stríðandi fylkingar.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.






×