Innlent

Upplýsingastjóri Reykjavíkur reifst við Björn Jón í nafni borgarinnar

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, hefur beðist afsökunar á því að hafa gert Birni Jóni Bragasyni upp skoðanir.
Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, hefur beðist afsökunar á því að hafa gert Birni Jóni Bragasyni upp skoðanir.
Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, hefur beðist afsökunar á því að hafa gert Birni Jóni Bragasyni, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í hverfisráði Laugardals, upp skoðanir í umræðuþræði á Facebook-síðu borgarinnar í nafni Reykjavíkur.



Sagður ganga erinda D-lista

„Ég biðst afsökunar á því að í færslunum hér að ofan eru Birni Jóni gerðar upp skoðanir sem hann viðraði ekki í sínum færslum en auk þess á þeim ummælum að hann gangi erinda D-listans í færslum sínum,“ segir hann í athugasemdum undir eigin nafni á þræðinum.



Fyrr í sama þræði sagði stjórnandi síðu Reykjavíkur að hafa þyrfti í huga að Björn Jón gengi erinda Sjálfstæðisflokksins í umræðunni en þar hafði hann gagnrýnt forgangsröðun borgarinnar. „Gatnakerfið er hrunið vegna viðhaldsleysis vinstrimanna síðustu ára sem hafa verið uppteknir við að eyða peningum almennings í gæluverkefni,“ skrifaði hann.



Þessu svaraði Reykjavíkurborg á eftirfarandi hátt: „Þetta er ekki rétt hjá Birni Jóni Bragasyni sem gengur hér pólitískra erinda D-listans á síðunni. Hann er maðurinn sem vill engar sumargötur.“



Oddvitinn gerði athugasemdir

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna í borginni, og Áslaug Friðriksdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, gerðu athugasemdir við ummæli í nafni borgarinnar. „Það er skrýtið að sjá þessi samskipti hér af hálfu ,,Reykjavíkurborgar",“ skrifaði Halldór.



„Tónninn í færslum Reykjavíkurborgar var óviðeigandi og þessari síðu ekki til sóma. Ég ritaði þessar færslur í flýti og biðst einlæglega afsökunar á því,“ skrifar Bjarni sjálfur í afsökunarbeiðninni.

Biðst afsökunar

Bjarni segir í samtali við Vísi að einu athugasemdirnar sem gerðar voru við skrifin hafi komið á Facebook-síðunni. „Í rauninni sá ég bara að mér. Það var ég sem skrifaði þetta og mér er ljúft og skylt að biðjast afsökunar á því. Þarna var of langt gengið í nafni borgarinnar,“ segir hann.



Hvað breyttist frá því að þú skrifaðir athugasemdirnar og þar til þú baðst afsökunar? „Ég fór bara aðeins að skoða þetta og auðvitað eru þessar kvartanir réttmætar. Þessi síða á ekki að vera pólitískt og Björn Jón hefur auðvitað frelsi til að setja hvaða skoðanir sem hann vill fram. Hefði ég viljað gera athugasemdir við það hefði ég getað gert það í eigin nafni.“

Vilja svör um ummælin

Í tilkynningu frá borgarráðsfulltrúum Sjálfstæðisflokksins kemur fram að þeir hafi óskað eftir svörum um hvernig staðið er að samskiptasíðunni. „
Spurningin kemur til vegna þess að fulltrúi af lista Sjálfstæðisflokksins setti inn gagnrýni á síðuna sem var svarað með skætingi og honum jafnvel gerðar upp skoðanir í skjóli nafnleysis þrátt fyrir að hér sé um einhvers konar samskiptasíðu Reykjavíkurborgar að ræða,“ segir í tilkynninguni.

Borgarráðsfulltrúarnir hafa óskað er eftir upplýsingum um í umboði hvers þessi vinna er unnin innan borgarinnar og hvaða starfsmenn borgarinnar sinna framkvæmd hennar. „Þar sem þetta er undir nafni Reykjavíkurborgar er þarna um opinbera rödd borgarinnar að ræða og þar af leiðandi undarleg ásýnd á það hvernig samtal borgaryfirvöld vilja hafa við íbúa sína,“ segir í tilkynninguni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×