Innlent

Uppgröfturinn í kapp við tímann

Freyr Bjarnason skrifar
Sjórinn brýtur landið við verbúðarústirnar og því fara rannsóknir fram í kapp við tímann.
Sjórinn brýtur landið við verbúðarústirnar og því fara rannsóknir fram í kapp við tímann.
Fornleifafræðingar- og nemar grófu niður á elsta byggingarstig verbúðarinnar á Gufuskálum við Hellissand í sumar og kom í ljós að um er að ræða mun stærri og flóknari byggingu en síðar varð.

Ekki náðist að ljúka við að grafa upp minjarnar að þessu sinni en vonast er til að hægt verði að halda áfram á næsta ári. Komið var niður á a.m.k. fimm hús eða herbergi og liggja tvenn göng í allri byggingunni að húsunum.

„Stærð og fjöldi húsanna kom mjög á óvart en ef litið er til allra þeirra mannvirkja sem eru við ströndina og teljast til verbúðarminja og þeirra gríðarmiklu mannvistarlaga sem er að finna á Gufuskálum stemmir stærð húsanna vel við þann fjölda fólks sem hefur væntanlega þurft að hýsa á meðan á vertíð stóð,“ segir stjórnandi verkefnisins, Lilja Björk Pálsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands.

Fólk að störfum við uppgröftinn á Gufuskálum í sumar.
Ýmsir gripir fundust við uppgröftinn, þar á meðal nokkrir taflmenn auk hnífa með fagurlega skreyttum skeftum úr beini. Að sögn Lilju er óljóst um áframhaldandi rannsóknir á Gufuskálum en þær upplýsingar sem þegar hafa fengist við rannsóknina segir hún vera ómetanlegar heimildir um umhverfisbreytingar og viðbrögð við þeim, en þó aðallega sjósókn og stækkandi hlutverk útgerðar á Íslandi á 15. öld.

Útvegsminjarnar á Gufuskálum eru friðlýstar og það má í raun ekki grafa í þær. Fornleifavernd ríkisins, nú Minjastofnun Íslands, veitti undanþágu til þessara rannsókna vegna þess að sjórinn er að brjóta landið við verbúðarústirnar. Þá er einnig tjón af völdum uppblásturs en nýjar minjar eru sífellt að koma í ljós á svæðinu. Frá því mælingar hófust í tengslum við rannsóknina árið 2008 hafa þrír metrar brotnað framan af því svæði sem minjarnar standa á og hafa grjóthleðslur og mannvistarlög glatast við það. Fornleifarannsóknirnar á Gufuskálum hafa því verið stundaðar í kapp við tímann.

Í fimm sumur hafa fornleifafræðingar og -nemar rannsakað útvegsminjar við Gufuskála á Snæfellsnesi. Rannsóknin er á vegum Fornleifastofnunar Íslands (FSÍ) og samstarfsaðila frá Bandaríkjunum og Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×