Innlent

Ungt fólk eins og flóðbylgja á fundinn

Snærós Sindradóttir skrifar
Bjarni Benediktsson bar ósigur úr býtum í nokkrum málum á fundinum, meðal annars tengdum verðtryggingunni. En hann var endurkjörinn formaður með 96 prósent atkvæða.
Bjarni Benediktsson bar ósigur úr býtum í nokkrum málum á fundinum, meðal annars tengdum verðtryggingunni. En hann var endurkjörinn formaður með 96 prósent atkvæða. Fréttablaðið/Stefán
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var tileinkaður 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Áhersla á konur var augljós í öllum undirbúningi fyrir fundinn en myndir af nokkrum fyrrverandi kvenráðherrum flokksins héngu flennistórar í Laugardalshöll. Á milli dagskrárliða var spilað myndband með ungum konum í flokknum þar sem þær sögðu sína skoðun á stjórnmálum dagsins í dag.

En fundurinn sjálfur var bókstaflega tekinn yfir af ungum sjálfstæðismönnum og þeirra sjónarmiðum. Samband ungra sjálfstæðismanna mætti gríðarlega vel undirbúið á fundinn og gekk sem ein heild inn í málefnanefndir með breytingartillögur. Þær breytingartillögur voru í 89 prósent tilfella samþykktar úr nefnd.

Og ræðumönnum varð nær öllum tíðrætt um að lausnin á sögulega slæmu fylgi flokksins væri framgangur ungs fólks. Það var engu líkara en eldra fólkið í flokknum drægi sig í hlé gagnvart vel skipulögðum ungliðum.

Það voru fáar mótbárur við frjálslyndum tillögum þeirra þó að einstaka hnuss heyrðist í eldra fólki sem þó var tilbúið að viðurkenna ósigur sinn.

Bjarni Benediktsson samþykkti tillögur þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar, meðal annars í gjaldmiðlamálum. Hann lagði til málamiðlunartillögu við einarðlega stefnu Efnahags- og viðskiptanefndar um að hefja ætti undirbúning að upptöku annars gjaldmiðils en krónu. 

Tillaga Bjarna hljóðaði svo að skoða ætti til þrautar að taka upp mynt sem væri gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum í stað krónunnar. Þar var ljóst að Bjarni talaði gegn eigin sannfæringu, eða stefnu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson á landsfundinum um helgina.vísir/stefán
Ung kona breikkar ásýnd flokksins

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir kom öllum á óvart þegar hún bauð sig fram á móti Guðlaugi Þór Þórðarsyni þingmanni í embætti ritara flokksins. Guðlaugur dró framboð sitt til baka við tíðindin.

„Ég held að tilkoma mín inn í þetta starf breikki ásýnd forystunnar. Ég er í háskóla og á vinnumarkaði á sumrin svo kannski er ég meira að upplifa það sem aðrir kjósendur eru að upplifa.“

Áslaug segist ekki búin að ákveða sig hvort hún nýti starfið sem stökkpall í næstu alþingiskosningum. „Ég er núna að hugsa um framtíðina, hvernig fólk getur haft trú á stjórnmálum og að koma sjálfstæðishugsjóninni, sem ég hef svo mikla trú á, áfram.“ Áslaug hlaut 92 prósent atkvæða og táraðist í þakkarræðu sinni.

Flokkurinn klofinn í tollamálum

Flokkurinn er algjörlega klofinn í afstöðu sinni til tolla á innflutta landbúnaðarvöru. Á öðrum vængnum ganga ungir sjálfstæðismenn fremstir í flokki þeirra sem vilja afnema alla tolla á innflutt matvæli. Fyrir fundinum lá tillaga um að afnema tolla á fjórum árum.

Á hinum vængnum eru bændur og eldri kynslóð sjálfstæðismanna. Það var Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, sem fyrstur veitti tillögunni andspyrnu. Hann vildi fella tillögur þeirra út í heild sinni sem meðal annars kváðu á um að endurskoða ætti búvörulög og að samkeppnislög ættu að gilda um landbúnað eins og aðrar atvinnugreinar.

Þungavigtarmenn í sögu Sjálfstæðisflokksins, eins og Halldór Blöndal, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, tóku undir með Ara.

Formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, leysti málið með málamiðlunartillögu þess efnis að tollaafnámið á fjórum árum færi út. Það var samþykkt, en ljóst var að bændur voru ekki að fá það sem þeir vildu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×