Innlent

Ungar stúlkur „skelfingu lostnar“ þegar þær koma í heimsókn á Litla-Hraun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fangelsið Litla-Hraun.
Fangelsið Litla-Hraun. vísir/anton brink

Fangelsismálastofnun hefur skilað inn umsögn til Alþingis vegna frumvarps innanríkisráðherra, Ólafar Nordal, um fullnustu refsinga.

Meðal þess sem fjallað er um í frumvarpinu eru heimsóknir til fanga en lagt er til að þeir sem sitja inni í lokuðum fangelsum geti fengið heimsóknir frá vinum tvisvar í mánuði, nema í sérstökum tilfellum.

Einnig er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að Fangelsismálastofnun setji nánari reglur um heimsóknir en nú gilda, til dæmis varðandi undanþágur fyrir fleiri vinaheimsóknum.

Mikilvægt að huga að því að heimsóknir séu ekki misnotaðar

Í umsögn Fangelsismálastofnunar segir þó að heimsóknir fjölskldu og vina til fanga séu mikilvægar þá sé jafnframt nauðsynlegt að huga að því að heimsóknirnar séu ekki misnotaðar. Oft kemur fyrir að gestir smygli eða reyni að smygla einhverju inn í fangelsin, til að mynda fíkniefnum.

„Ekki þarf að fjölyrða um alvarleika þess þegar fíkniefni komast í fangelsin en dæmi eru um að mjög illa hafi farið fyrir föngum sem hafa komist í slík efni. Ungur fangi á Litla-Hrauni dó fyrir nokkrum árum eftir ofneyslu slíkra efna í fangelsinu og þá er nýlegt dæmi um að s.k. nasistasýra hafi komist í umferð á Litla-Hrauni með alvarlegum afleiðingum. Í báðum tilvikum er grunur um að efnin hafi borist inn í fangelsið með heimsóknargestum,” segir í umsögn Fangelsismálastofnunar.

Vísuðu þumalfingri upp eða niður eftir því hvort þeir vildu fá stúlkurnar í heimsókn

Þá eru í umsögninni jafnframt tekin dæmi um ungar stúlkur sem komið hafa í heimsókn á Litla-Hraun „eftir að fangar höfðu sett þær á heimsóknarlistann sinn.“ Það hafi hins vegar komið í ljós þegar þær komu í fangelsið að þær þekktu ekki fangana í sjón sem þær voru komnar til að heimsækja.

„Þá hafa stúlkur verið skelfingu lostnar við komuna í fangelsið og hafa jafnvel þakkað fangavörðum fyrir að vísa þeim frá þar sem þær vildu alls ekki heimsækja fangana en þorðu ekki að segja frá því. Eitt versta dæmið er þegar fangar „stilltu“ stúlkum upp í glugga heimsóknarherbergis sem vísaði út á fótboltavöll fangelsisins en þar stóðu aðrir fangar og vísuðu þumalfingri sínum annað hvort upp eða niður eftir því hvort þeir vildu fá þær í heimsókn til sín.“

Í ljósi þessa telur Fangelsismálastofnun það mikilvægt að næg úrræði séu til staðar svo koma megi í veg fyrir að heimsóknir til fanga séu misnotaðar. Að mati stofnunarinnar er verið að skerpa á reglunum um heimsóknir í frumvarpi innanríkisráðherra og fær stofnunin ekki séð að gengið sé á réttindi fanganna með því.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×