Innlent

Ung kona í einangrun í hegningarhúsinu vegna plássleysis

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir konur oftast vistaðar í opnum fangelsum og það hafi ekki gerst áður að kona hafi verið vistuð í Skólavörðustíg.
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir konur oftast vistaðar í opnum fangelsum og það hafi ekki gerst áður að kona hafi verið vistuð í Skólavörðustíg. Vísir/Vilhelm
Kvennafangelsið er í niðurníðslu og húsið verður líklega rifið. Fangelsinu hefur nú verið lokað og var síðasti fanginn var fluttur þaðan út í dag í hegningarhúsið við Skólavörðustíg og er í einangrun vegna plássleysis. 

Rósa Jónsdóttir, er móðir ungu konunnar sem var flutt úr fangelsinu í dag í hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Hún gagnrýnir vinnulag Fangelsismálastofnunar. 

„Hún var að hringja í mig grátandi. Hún er í einangrun þar svo hún hitti ekki einhverja barnaníðinga. Eigum við að ræða þetta? Ég var að hringja í Fangelsismálastofnun og þeir geta ekkert svarað mér hvort hún eigi að vera áfram þar. Þeir vita ekki hvað þeir eiga að gera við hana.“

Engar konur áður vistaðar í hegningarhúsinu á Skólavörðustíg

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir konur oftast vistaðar í opnum fangelsum og það hafi ekki gerst áður að kona hafi verið vistuð í Skólavörðustíg.

„Þær fóru í hin fangelsin, tvær konur fóru norður á Akureyri og ein í hegningarhúsið, karlarnir fóru á Litla hraun og í opnu fangelsin. Þetta er mikið púsl. Þetta hefur ekki gerst áður svo ég viti, þetta eru bara okkar aðstæður í dag og við verðum bara að gera það besta úr því.“

Kvennafangelsið er í algerri niðurníðslu og hefur verið rekið á undanþágu frá heilbrigðiseftirlitinu í langan tíma. Fangelsismálastofnun verið gagnrýnd fyrir að vista þar fanga til lengri tíma. Í einu herbergi hússins dvaldi kona í meira en áratug.

„Þetta er auðvitað hrikalegt, aðbúnaðurinn verður allur annar á Hólmsheiði.“

Húsið líklega rifið

Flestu þar innandyra verður hent og húsið verður líklega rifið. „Það er í sjálfu sér ekkert sem er hægt að nýta, en það sem er hægt, verður gefið hegningarhúsinu,“ segir Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×