Innlent

Undirbúa hundrað megavatta virkjun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Um fimmtíu manns starfa nú á Þeistareykum í Þingeyjarsýslum við undirbúningsframkvæmdir vegna hundrað megavatta jarðvarmavirkjunar. Verktakar segja gesti verða hissa þegar þeir sjá öll umsvifin á svæðinu.

Byrja þurfti á að leggja veg frá Húsavík inn á Þeistareyki til að bera alla þungaflutningana sem fylgja stórvirkjunum og þar er að koma bundið slitlag. Aðalframkvæmdasvæðið er hins vegar um tvo kílómetra frá gamla Þeistareykjabænum, - þar var brennisteinsnám stundað fyrr á öldum en búseta lagðist af fyrir 140 árum. En nú hefur aftur færst líf í svæðið.

Landsvirkjun er að vinna í haginn ef ákvörðun skyldi verða tekin um að reisa kísilver á Húsavík, sem á að fá orkuna héðan frá Þeistareykjum. Alls starfa um fimmtíu manns nú á svæðinu á vegum fjögurra verktaka; Jarðboranir og Ræktunarsamband Flóa og Skeiða bora holur, Þ.S.-verktakar á Egilsstöðum leggja vatnsveitu en G. Hjálmarsson á Akureyri er með stærsta verkþáttinn, jarðvegsvinnu við væntanlegt stöðvarhús.

Guðmundur Hjálmarsson forstjóri hafði lítinn tíma til að ræða við fréttamann.Vísir/Stöð 2
Þetta er 300 milljóna verksamningur fyrir G. Hjálmarsson, sem er með 15 til 20 manns í vinnu á svæðinu.

„Þetta hefur bara gengið vel,“ segir Hjálmar Guðmundsson, verkstjóri hjá G. Hjálmarsson ehf. „Það er samt mikið eftir, en vonandi verður haustið bara gott.“

Hjálmar segir það koma mörgum á óvart sem heimsækja svæðið hversu mikið sé um að vera, en allur undirbúningur miðast við að Landsvirkjun geti tekið ákvörðun um byggingu virkjunar með stuttum fyrirvara. Þar er beðið ákvörðunar þýska félagsins PCC um kísilver en búist er við henni í desember. Miðað við umsvifin á Þeistareykjum verður þó vart aftur snúið með það að þar rísi virkjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×