Innlent

Undiralda vegna Rammans á Alþingi

Svavar Hávarðsson skrifar
Tillaga verkefnisstjórnar fór óbreytt til þingsins frá hendi núverandi og fyrrverandi umhverfismálaráðherra. Hafi verið tekist um málið undanfarin ár þá virðist þess sama að vænta nú eins og heyra mátti á þingmönnum.
Tillaga verkefnisstjórnar fór óbreytt til þingsins frá hendi núverandi og fyrrverandi umhverfismálaráðherra. Hafi verið tekist um málið undanfarin ár þá virðist þess sama að vænta nú eins og heyra mátti á þingmönnum. vísir/vilhelm
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti fyrir þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, eða 3. áfanga rammaáætlunar, á þriðjudag. Af umræðum á þinginu má ráða að harðra átaka sé að vænta um málið.

Tillagan er óbreytt frá hendi verkefnastjórnar rammaáætlunar sem forveri Bjartar, Sigrún Magnúsdóttir, lagði fram á liðnu þingi. Eftir að Björt hafði mælt fyrir málinu kom Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkis-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, næstur á eftir henni í ræðustól. Hann sagði: „ …þegar þetta plagg var afgreitt úr fyrri ríkisstjórn var ég með fyrirvara á plagginu og eins í þingflokki Framsóknarflokksins, því að mér finnst þetta plagg vera ónýtt.“

Sjálf sér Björt þingsályktunartillöguna í því ljósi að í senn sé um að ræða öfluga „orkunýtingaráætlun á sama tíma og hún er metnaðarfull verndaráætlun“.

Teitur Björn Einarsson
Lagt er til að um 660 MW bætist í nýtingarflokk. Þannig feli 2. og 3. áfangi í sér mikla möguleika til orkuöflunar, rúmlega 1.400 MW. Til samanburðar er uppsett afl allra núverandi virkjana á Íslandi 2.500 MW, sagði ráðherra. „Á sama tíma er lagt til að mörg mikilvæg svæði verði sett í vernd. Þannig er mjög gott jafnvægi í þessum tillögum milli sjónarmiða verndunar og nýtingar ef það er mælt í orkueiningum en verndarflokkur og nýtingarflokkur eru nokkurn veginn jafn stórir í þessum tillögum,“ sagði Björt.

Umræðurnar stóðu í á fimmtu klukkustund áður en málinu var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar. Má minna á að á síðasta þingi var það mjög umdeilt að málið var til umfjöllunar í atvinnuveganefnd, og var þráfaldlega bent á að það ætti heima í umhverfisnefnd þingsins, eins og sitjandi ráðherra hefur fengið í gegn.

Í umræðunum var sleginn varnagli af stjórnarandstöðunni. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði sérstaklega um Þjórsá – ungt fólk á svæðinu hefði stigið fram og vildi ekki uppbyggingu með sama hætti og eldri kynslóðir. Heilt yfir séu önnur atvinnutækifæri efst í huga komandi kynslóða og þau byggi ekki endilega á raforkuframleiðslu.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, sagði mikilvægt að spyrja sig þeirrar spurningar hvort ekki þurfi að skoða eitt og annað mun betur. Það megi spyrja hvað liggi á og hvað eigi að gera við allt það rafmagn sem leyfilegt er að framleiða með því að nýta þá orkukosti sem skipað er í nýtingarflokk rammaáætlunar nú þegar. Loftslagsmálin séu ein og sér nægt tilefni til þess að fara varlega.

Á sama tíma má ráða að málið mæti andstöðu innan Sjálfstæðisflokksins – þingmaðurinn Teitur Björn Einarsson sagði að umhverfis­nefnd þingsins yrði að vera í nánu samstarfi við atvinnuveganefnd við umfjöllun málsins – og vel megi búast við að einstakir kostir færist úr nýtingu eða vernd og yfir í biðflokk. Eins að gangi málið illa í meðförum þingsins þurfi að endurskoða löggjöfina.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi umhverfisráðherra, sagði tíðindi felast í orðum Teits – um stjórnarmál væri að ræða og það lagt fram í nafni hennar. Teitur setji efnislega fyrirvara við málið og spurði hvort hann einn stjórnarþingmanna væri þeirrar skoðunar.

Teitur sagði túlkun Svandísar á orðum hans „frjálslega“, hann styddi málið og færi einfaldlega fram á vandaða þinglega meðferð.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×