Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Þróttur - Valur 0-4 | Auðvelt dagsverk hjá Valsmönnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valsmenn fagna einu marki sinna í kvöld.
Valsmenn fagna einu marki sinna í kvöld. Vísir/stefán
Valur vann stórsigur á Þrótti, 0-4, í 16. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld.

Með sigrinum komust Valsmenn upp í 5. sæti deildarinnar en Þróttarar eru svo gott sem fallnir, með átta stig á botninum og níu stigum frá öruggu sæti.

Leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleik en mark Kristins Freys Sigurðssonar skildi liðin að í hálfleik.

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn svo af fítonskrafti og skoruðu þrjú mörk á fyrstu 20 mínútum hans.

Andri Adolphsson skoraði annað mark Vals á 48. mínútu, Kristinn Freyr bætti því þriðja við á 62. mínútu og Kristinn Ingi Halldórsson negldi svo síðasta naglann í kistu Þróttara þremur mínútum síðar.

Af hverju vann Valur?

Fyrri hálfleikurinn var jafn og bæði lið áttu sín augnablik. Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, stillti upp með tígulmiðju sem gafst ágætlega í fyrri hálfleik. Þróttarar nýttu yfirtöluna á miðjunni á köflum vel og komust í álitlegar stöður á síðasta þriðjungnum sem þeir hefðu átt að nýta betur.

Varnarleikurinn var þó alltaf tæpur og sérstaklega þegar Þróttarar töpuðu boltanum. Valsmenn áttu góða spilkafla en fóru ekki almennilega í gang fyrr en í upphafi seinni hálfleiks þegar þeir keyrðu hreinlega yfir heimamenn.

Þróttarar réðu ekkert við Valsmenn í seinni hálfleik og eftir 65 mínútur var staðan orðin 0-4 og leik þar með lokið.

Þessir stóðu upp úr

Kristinn Freyr hefur verið sjóðandi heitur að undanförnu og gaf ekkert eftir í kvöld. Hann skoraði tvö mörk og er því kominn með níu mörk í síðustu sjö leikjum Vals. Mörkin í sumar eru alls orðin 14 og Kristinn Freyr er þegar búinn að skora níu mörkum meira en allt tímabilið í fyrra.

Andri hélt líka uppteknum hætti frá því í síðustu leikjum og skilaði marki og stoðsendingu. Guðjón Pétur Lýðsson var einnig góður og lagði upp tvö mörk og Kristinn Ingi skoraði sitt sjötta mark í síðustu sjö leikjum Vals. Þá átti Anton Ari Einarsson flottan leik í marki gestanna.

Hjá Þrótti var Christian Nikolaj Sörensen góður í fyrri hálfleik og var óheppinn að skora ekki þegar skot hans small í stönginni á 38. mínútu. Dion Acoff var svo að venju ógnandi og það er sama hversu slakir Þróttarar eru alltaf gerir Bandaríkjamaðurinn sig gildandi.

Hvað gekk illa?

Vörn Þróttar hélt hvorki vatni né vindum frekar en fyrri daginn. Einbeitingar- og andvaraleysið er algjört og varnarmenn liðsins virðast hafa afar takmarkaða tilfinningu fyrir leiknum.

Þróttarar spiluðu sem áður sagði ágætlega í fyrri hálfleik en þú færð ekkert fyrir að spila vel í 45 mínútur. Um leið og Valsmenn gáfu aðeins í kom getumunurinn á liðunum í ljós og gestirnir kafsigldu þá rauðu og hvítu í byrjun seinni hálfleiks.

Hvað gerist næst?

Valsmenn hafa unnið tvo síðustu deildarleiki sína með markatölunni 11-0. Þeir munu þó væntanlega ekki hafa sömu yfirburði í næstu fjórum leikjum sínum sem eru gegn KR, Stjörnunni, Breiðabliki og FH. En miðað við spilamennskuna að undanförnu þurfa strákarnir hans Ólafs Jóhannessonar ekki að kvíða neinu.

Þróttur sækir ÍBV heim í næsta leik sínum. Staða liðsins er vond og aðeins meiriháttar kraftaverk virðist geta bjargað liðinu frá falli.

Ryder: Getum ekki spilað heilan leik vel

Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, horfði upp á sína menn tapa enn einum leiknum í kvöld.

„Mér fannst við vera betra liðið í fyrri hálfleik en ég hef sagt það margoft í sumar. Við erum ófærir um að spila heilan leik vel,“ sagði Gregg eftir leik.

„Í mínum huga snýst þetta ekki um getu, þetta er andlegt vandamál.“

Þrátt fyrir 0-4 tap sá Gregg nokkra jákvæða punkta í leik Þróttar í fyrri hálfleik.

„Ég sá jákvæða punkta í fyrri hálfleik eins og ég hef gert í næstum því öllum leikjum í sumar. Ég er jákvæður maður.

„En þú verður að gera þetta almennilega í 90 mínútur, annars er þér refsað,“ sagði Gregg sem er orðinn þreyttur á slökum varnarleik sinna manna.

„Við gerðum mistök í vörninni. Þetta er alltaf sama vandamálið, sama hvaða leikaðferð við spilum,“ sagði Englendingurinn að endingu.

Ólafur: Ánægður með mína menn

Það var létt yfir Ólafi Jóhannessyni, þjálfara Vals, eftir stórsigur hans manna á Þrótti í kvöld.

„Við spiluðum fínan leik hérna í dag og ég er ánægður með mína menn,“ sagði Ólafur í leikslok.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn en í þeim seinni voru Valsmenn mun sterkari aðilinn og kláruðu leikinn af öryggi.

„Mér fannst við hafa góð tök á leiknum en í hálfleik töluðum við um að bæta okkur aðeins og þá myndum við fá fleiri opnanir. Og það gekk eftir,“ sagði Ólafur sem brýndi fyrir sínum mönnum að halda einbeitingu í leiknum.

„Okkar leikur snýst alltaf um okkur. Við leggjum meiri áherslu á okkur en andstæðinginn. Þegar menn spila við lið í neðri hlutanum er hætt við að þeir gleymi sér og tapi einbeitingunni en það gerðist ekki í dag.“

Valsmenn eru þegar búnir að tryggja sér Evrópusæti með sigrinum í Borgunarbikarnum og hafa þannig séð að litlu að keppa í síðustu umferðum Pepsi-deildarinnar. Ólafur vill þó sjá sína menn klára mótið af krafti.

„Við förum í hvern leik til þess að vinna hann og þannig verður það,“ sagði Ólafur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×