Innlent

Umfangsmikil leit að ódæðismanninum í Berlín

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vörubílnum var ekið 50 til 80 metra áður en bílnum var numið staðar við stóra jólatréð á markaðssvæðinu.
Vörubílnum var ekið 50 til 80 metra áður en bílnum var numið staðar við stóra jólatréð á markaðssvæðinu. Vísir/AFP
Umfangsmikil leit stendur yfir að ódæðismanninum sem ók vöruflutningabíl inn í mannþröng í Charlottenburg-hverfinu í fyrradag með þeim afleiðingum að tólf létust. Einn var handtekinn í tengslum við árásina í gær en hefur nú verið sleppt úr haldi.

Þýska lögreglan telur mögulegt að árásarmaðurinn eigi sér vitorðsmann og að þeir kunni báðir að vera vopnaðir. Hefur öryggisgæsla því verið aukin í borginni; lögreglumönnum fjölgað og girðingum komið fyrir umhverfis fjölfarna markaði í borginni. Haft hefur verið eftir innanríkisráðherra landsins, Thomas de Maizere, að enginn slaki verði sýndur fyrr en búið sé að handsama mennina.

Hryðjuverkasamtökin ISIS, sem kenna sig við íslamskt ríki, hafa lýst árásinni á hendur sér, en hafa þó ekki fært sönnur á það.

Einn maður fannst látinn í flutningabílnum en talið er að árásarmaðurinn hafi skotið hann og stungið til bana. Sá var pólskur ríkisborgari að nafni Lukasz Uraban.  

Alls særðust 49 í árásinni, þar af eru að minnsta kosti tíu þeirra í lífshættu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×