Innlent

Umfang matarsóunar ókannað

fanney birna jónsdóttir skrifar
Mikill lífrænn niðurbrjótanlegur úrgangur fer til Sorpu frá íslenskum heimilum.
Mikill lífrænn niðurbrjótanlegur úrgangur fer til Sorpu frá íslenskum heimilum.
Matarsóun hefur ekki verið skilgreind sérstaklega hér á landi í lögum eða reglugerðum. Þetta kemur fram í svari Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, við fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar.

Brynhildur spyr hvort umfang matarsóunar hafi verið mælt hér á landi en fær þær upplýsingar að ekki séu til áreiðanlegar tölur um umfangið.

Brynhildur Pétursdóttir
„Mig grunaði þetta. Ef það á að ráðast á vandann þá þarf að skilgreina hann og hvort matarsóun sé yfirhöfuð vandamál á Íslandi og þá hvar,“ segir Brynhildur í samtali við Fréttablaðið.

Í svarinu kemur þó fram að samkvæmt mælingum Sorpu bs. sé lífrænn niðurbrjótanlegur úrgangur um 45 prósent innihalds heimilisúrgangs. Á árinu 2014 söfnuðust um 30 þúsund tonn af þessum úrgangi frá 84 þúsund heimilum með tæplega 209 þúsund íbúum á höfuðborgarsvæðinu eða sem nemur 65 kílóum á íbúa.

Í ljósi reynslu annarra ríkja og rannsókna sem þar hafa farið fram segir ráðherra að gera verði ráð fyrir að matarsóun sé ekki minna vandamál á Íslandi en annars staðar.

„Þetta er ekki einkamál, þetta er umhverfismál,“ segir Brynhildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×