Lífið

Umdeild baráttukona

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Birgitta
Birgitta Halldór Baldursson
Birgitta Jónsdóttir er einn forsprakka og stofnenda stærsta stjórnmálaflokks landsins samkvæmt skoðanakönnunum. Segja má að Birgitta hafi verið ansi áberandi undanfarið en á dögunum sagði hún frá því að hún ætlaði að bjóða sig aftur fram til Alþingis vegna þess að henni fyndist óábyrgt að stökkva frá borði í miðri aðgerð og átti þar við stjórnarskrármálið. Áður hafði hún sagt að hún ætlaði sér bara að sitja tvö kjörtímabil á Alþingi.

En hver er Birgitta Jónsdóttir og hvaðan kemur hún?

Birgitta er fædd 17. apríl 1967 í Reykjavík. Hún hefur setið á þingi síðan 2009, fyrst fyrir Borgarahreyfinguna, síðan Hreyfinguna og loks Pírata.

Birgitta er dóttir Bergþóru Árnadóttur söngvaskálds og Jóns Ólafssonar, skipstjóra og útgerðarmanns, sem bæði eru látin. Birgitta ólst upp í Reykjavík og í Þorlákshöfn. Hún kláraði eitt ár í MH og er sjálfmenntuð í vefhönnun og vefþróun, grafískri hönnun og umbroti. Henni er margt til lista lagt og er fjöllistakona, rithöfundur, ljóðskáld, þýðandi og myndlistarmaður. Áður en hún tók sæti á þingi hafði hún meðal annars starfað við blaðamennsku og sem grafískur hönnuður. Hún hefur einnig haldið fjölda málverkasýninga og gefið út yfir 20 ljóðabækur á ensku og íslensku frá árinu 1989. Birgitta er mikil baráttumanneskja og hefur verið í forsvari fyrir samtökin Saving Iceland, Vina Tíbets, var sjálfboðaliði hjá Wikileaks auk þess sem hún er stjórnarformaður IMMI, svo eitthvað sé nefnt.

Byrjaði snemma að yrkja

„Hún er mjög góð og traust vinkona,“ segir Margrét Lóa Jónsdóttir, æskuvinkona Birgittu. Hún segir hana alltaf hafa verið mjög listræna. „Hún fór mjög snemma að yrkja ljóð. Hún hefur alltaf verið mjög listræn í sér, alltaf að teikna og mála líka. Mamma hennar hafði líka töluverð áhrif á hana, það var mikil músík á heimilinu.“

Birgitta hefur búið víða um heim, meðal annars á Nýja Sjálandi, Bretlandi, Noregi og í Bandaríkjunum.

Vinir og samstarfsmenn lýsa Birgittu sem mikilli baráttukonu sem sé þó alls ekki allra. Hún er óhrædd við að synda á móti straumnum og fylgir eftir sínum baráttumálum. Og hún er svo sannarlega umdeild.

„Birgitta er Birgitta. Það er ekki hægt að setja hana í neitt annað box,“ segir Daði Ingólfsson náinn vinur hennar. „Birgitta er einlæg. Það er enginn falskur tónn í henni, og ef maður væri skáld mundi maður kalla þann tón kraftbirtingarhljóm stjórnmálanna. En verandi hálfgerður ræfill getur maður bara lýst þessu sem áráttukenndri ást á réttlæti og virðingu með dassi af opineygu, steinhissa tómlæti gagnvart hlutum sem ekki skipta nokkru einasta máli,“ segir Daði og tekur fram að þessir eiginleikar séu jafnt hennar mesti kostur og stærsti galli.

„Og ástæðan fyrir því að hún og Píratar hafa náð eins langt og raun ber vitni. Því hverjum er ekki sama um stjórnmálamenn og -flokka sem finnst mikilvægast að rökstyðja í pontu að betra sé að brjóta hið harðsoðna egg á mjóu hliðinni frekar en hinni breiðu og tilbúnir að leggja sál sína að veði fyrir útkomunni. Ásamt gervallri velferð þjóðarinnar.“



Brennur fyrir málefnin 

Margrét Lóa tekur undir þetta og segir hana duglega og vinnusama. Hún vakni yfirleitt eldsnemma og það sé alltaf mikið að gera hjá henni. Hún sé þó líka mikil fjölskyldumanneskja sem passar uppá að kúpla sig út reglulega og gefa sér tíma með fjölskyldunni. „Hún er ofboðslega dugleg, mjög fylgin sér og ákveðin,“ segir Margrét. Hún segir það ekki hafa komið á óvart að Birgitta hafi farið út í stjórnmál. „Hún byrjaði mjög fljótt að vera meðvituð um þessi mál öll sömul. Henni finnst að fólk eigi að vera meðvitað og taka þátt í lýðræðissamfélagi. Taka ábyrgð og hugsa sjálfstætt.“

Birgitta stofnaði Pírataflokkinn á Íslandi ásamt þeim Smára McCarthy og Jason Katz árið 2012. Flokkurinn bauð í fyrsta skipti fram í Alþingiskosningunum 2013 undir listabókstafnum Þ og fékk 5,1% atkvæða og 3 þingmenn. Samkvæmt könnun MMR frá því í janúar sl. mældist fylgi flokksins þá 37,8 prósent.

Smári McCarthy segir hana brenna fyrir þau málefni sem hún vinnur að. „Hún setur alltaf sín hugðarefni í fyrsta farrými. Hún stendur á sínu og hefur ákveðnar hugsjónir og vill koma þeim á framfæri. Það er yfirleitt kostur en stundum galli. Það fylgir alltaf þegar maður hefur miklar hugmyndir um heiminn þá er alltaf spurning hversu vel heimurnn tekur þeim. Þegar gengur vel að koma þeim á framfæri er það jákvætt og gott en stundum getur það verið erfitt.“

Syndir á móti straumnum 

Það vakti athygli á dögunum þegar Birgitta skrifaði á Facebook-síðu Frjálshyggjufélagsins að hún ætlaði að bjóða sig aftur fram í næstu Alþingiskosningum. „Ég mun bjóða mig fram til að tryggja að þið sem talið um að sniðugt sé fyr­ir frjáls­hyggju­menn að ganga í Pírata til að geta tekið yfir kosn­inga- og stefnu­mót­un­ar­ferl­in okk­ar. Ég ætla að bjóða mig fram þó það væri ekki nema til að tryggja að ykk­ar hug­mynda­fræði taki ekki yfir Pírata,“ skrifaði Birgitta. Tilefnið voru umræður um frjálshyggju, Sjálfstæðisflokkinn og Pírata. 

Sagði hún umræðuna þar hafa hjálpað henni að gera upp hug sinn um framboð fyrir næstu þingkosningar en áður hafði hún sagt að hún myndi ekki gefa kost á sér aftur.

Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður Pírata segir Birgittu búa yfir miklum styrkleikum en líka veikleikum. „Peter Drecker faðir nútímastjórnunar benti skýrt á að þegar þú finnur manneskju með mikla styrkleika þá finnur þú manneskju með mikla veikleika samhliða. Hennar styrkleikar eru að hún er með ofboðslega djúpt innsæi, hún er eldheit í réttindabaráttunni og ofboðslega vinnusöm í þá átt. Hún á það til finna akkúrat rétta hlutinn að gera hverju sinni og henni tekst það oft og þá er það brilljant. En rétt eins og þegar hún fer í jákvæðan uppspíral og dregur marga með sér þá getur það verið eins þegar það er neikvæður niðurspírall.“ Jón Þór segir hana ekki ákvarðanafælna og hún sé óhrædd við að synda á móti straumnum. „Hún er hugrökk sem er mikill kostur og bara góð manneskja.“ Hann segir hana þó ekki alltaf vera þá vinsælustu og hún sé heldur ekki að reyna það.

„Annað hvort líkar fólki mjög vel við hana eða mjög illa. Ef þú ert þessum eiginleikum gæddur þá er eðlilegt að þú sért umdeildur.“





Getur verið erfið í samstarfi 

En hvernig samstarfsmaður er hún? „Hún getur verið erfið en hún reynir að nýta upplýsingar frá þeim sem vinna með henni í botn,“ segir Smári. Þau Smári unnu meðal annars saman í kringum Wikileaks. Hann segir það hafi fylgt því mikil streita að starfa fyrir samtökin. „Hún höndlaði það mjög vel. Það kom öllum á óvart hvað allir í hópnum tóku virkilega vel á streitunni þarna, hún þar á meðal. Sumir höndluðu þetta verr en aðrir en hún hélt sínu striki.“

Birgitta hefur verið umdeild innan flokks og utan. Hún var sjálf spurð að því í þættinum Eyjunni á Stöð 2 á dögunum hvort hún væri umdeild innan flokksins. „Ég er bara svona persóna, að annað hvort hatar fólk mig eða fólk elskar mig. Það er ekkert þar á milli og ég er alveg vön því,“ sagði Birgitta.

Smári segir Birgittu umdeilda og hún taki oft afstöðu sem sé ekkert endilega vinsæl. „Til dæmis hefur hún talað mikið um það undanfarnar vikur og mánuði að hafa stutt kjörtímabil næst sem er ekki eitthvað sem er búið að samþykkja innan Pírata. Hún talar um þetta eins og þetta sé bara orðinn hlutur nánast. Það er aftur á móti búið að samþykkja að stjórnarskrárbreytingar verði í fyrirrúmi. Það felur svolítið í sér að það verði stutt kjörtímabil en það breytir því ekki að þegar öllu er á botninn hvolft, ef við vinnum næstu kosningar með góðum árangri og komumst í einhvers konar stjórnarstöðu þá þarf samt að smíða fjárlög, reka öll ráðuneytin og gera fullt af hlutum. Það er ekki hægt að fleygja því út um gluggann og demba nýrri stjórnarskrá í gegn. Það er alveg hægt að leggja áherslu á stjórnarskrána og það er það sem við ætlum okkur að gera innan Pírata en það er samt raunveruleiki sem blasir við þarna og það er kannski helst það hvað hún gengur hart fram með þennan hugsunarhátt um stutt kjörtímabil sem fer fyrir brjóstið á fólki núna vegna þess að raunveruleikinn mun ekki leyfa það nema með einhvers konar kraftaverki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×