Innlent

Umboðsmaður efast um lögmæti synjunar

kristjana björg guðbrandsdóttir skrifar
Héðinn Unnsteinsson skrifaði bókina Vertu úlfur um reynslu sína af veikindum sínum og íslensku geðheilbrigðiskerfi. Umboðsmaður Alþingis hefur beint því til Embættis Landlæknis að taka upp mál Héðins á ný, ellegar muni hann taka það upp sjálfur.
Héðinn Unnsteinsson skrifaði bókina Vertu úlfur um reynslu sína af veikindum sínum og íslensku geðheilbrigðiskerfi. Umboðsmaður Alþingis hefur beint því til Embættis Landlæknis að taka upp mál Héðins á ný, ellegar muni hann taka það upp sjálfur. Fréttablaðið/Valli
Yfirlæknir geðsviðs Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, Sigmundur Sigfússon, synjaði Héðni Unnsteinssyni um innlögn á geðdeild árið 2008 vegna álits starfsmanna deildarinnar á skoðunum hans, sem hann lýsti í viðtali við Kastljós. Þetta kemur fram í bréfi sem Sigmundur ritaði Héðni sjálfur og er birt hér með greininni. Í fyrirspurn sem umboðsmaður Alþingis sendi heilbrigðisráðuneytinu kemur fram að hann efist um lögmæti synjunarinnar.

Vegna synjunarinnar frá Sigmundi urðu veikindi Héðins verri. Dráttur varð á læknismeðferð og veikindi hans urðu svo svæsin að hann var neyðarvistaður í Reykjavík og var lengi að jafna sig eftir áfallið. Hann hitti Sigmund á ráðstefnu vegna vinnu sinnar um geðheilsu eftir efnahagshrunið og ákvað eftir þann fund að hann þyrfti úrlausn á málinu. „Ég spurði hann þá hvers vegna hann hefði synjað mér um læknismeðferð. Hann svaraði því til að ég skyldi bara læra af þessu. Hvað var það sem ég átti að læra? Sjúkrahúsið neitaði mér um innlögn á grundvelli skoðana minna. Ég þurfti hjálp en fékk ekki og veikindi mín versnuðu. Ég fann eftir þetta samtal við hann að ég þurfti úrlausn svo aðrir lentu ekki í sömu sporum. Þetta má ekki gerast í íslensku heilbrigðiskerfi,“ segir hann.

Sigmundur sendi Héðni bréf í október 2012. Hluti þess er birtur hér með greininni og lýtur að ástæðum synjunar hans. „Ráðuneytið benti mér á að fara með umkvörtun mína í hefðbundið ferli, sem ég gerði. Ég sendi kvörtun til Embættis landlæknis.“

Héðinn fékk ekki svör fyrr en eftir 72 vikur og þá þess efnis að embættið sæi ekkert að vinnulaginu. Álit landlæknis var byggt á þeim forsendum að engin formleg innlagnarbeiðni til FSA hefði legið fyrir.

Umboðsmaður Alþingis tók við umkvörtun Héðins og sendi bæði Embætti landlæknis og heilbrigðisráðherra fyrirspurnir um málið og vísar í stjórnarskrárvarin réttindi hans. Í erindi hans segir m.a.:

„Af fyrirliggjandi gögnum þessa máls verður ekki annað ráðið en í raun hafi ástæða þess að Héðinn var ekki lagður inn á FSA á sínum tíma verið afstaða starfsmanna FSA til ummæla hans í Kastljósþætti Ríkissjónvarpsins er lutu að starfsemi sjúkrahússins. […] Ég minni í þessu sambandi á þá umgjörð sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstofnunum er búin í lögum sem ætlað er að útfæra það ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar um að öllum sem þess þurfa skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika. Hér kann einnig að þurfa að horfa til 14673. gr. stjórnarskrárinnar og laga um tjáningarfrelsi einstaklinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×