Skoðun

Um kynningu á frístundastarfi í grunnskólum

Eva Dögg Guðmundsdóttir skrifar
Þann 11. júlí var stutt viðtal í Fréttablaðinu við undirritaða vegna frístundaverkefnisins Samspils sem er ókeypis íþróttaæfingar á skólalóð Fellaskóla í sumar og styrkt af ÍTR. Þar kemur fram að kynning á Samspili hafi ekki farið fram í grunnskólum vegna reglna sem heimila ekki auglýsingar í grunnskólum. Í viðtali í Fréttablaðinu við Hauk Þór Haraldsson, framkvæmdastjóra ÍR, degi síðar kemur fram að íþróttafélagið hafi orðið vart við að foreldrar viti ekki af frístundakortinu, enda hafi verið lokað á kynningu á íþróttastarfi í grunnskólum haustið 2011. Árið 2009 voru settar leiðbeinandi reglur frá talsmanni neytenda og umboðsmanni barna og til að vitna í greinina stendur: „…engar auglýsingar skuli vera í grunnskólum eða leikskólum né önnur markaðssókn.“

Rannsóknir á Norðurlöndunum hafa sýnt fram á að íþróttaiðkun barna hafi ávinning fyrir bæði einstaklingana en einnig samfélagið. Umfangsmikil doktorsrannsókn Stefans Wagnsson frá 2009 þar sem yfir 1.200 ungmenni í Svíþjóð tóku þátt, leiddi meðal annars í ljós að krakkar sem eru í íþróttum eru líklegri til að halda sig innan félagslegra norma í samfélaginu en þeir sem ekki stunda íþróttir. Þar að auki sýndi rannsóknin fram á að börnunum sem tóku þátt í íþróttum fannst þau vera vinsælli og njóta meiri viðurkenningar af vinunum en þau sem voru ekki í íþróttum.

Í skýrslu frá Lýðheilsustöð Danmerkur (Sundhedsstyrelsen, 2008) er sýnt fram á að íþróttaþátttaka hjá börnum hefur í för með sér eftirfarandi þætti:

Meiri lífsgleði og aukið sjálfstraust.

Gott heilsufar.

Börnum finnst þau í minna mæli vera hjálparlaus.

Þau upplifa síður morgunþreytu.

Þau eiga auðveldara með að eignast vini.

Þeim finnst þau síður vera útundan.



Ég vil nýta tækifærið og hvetja hina nýju borgarstjórn í Reykjavík til að endurskoða þessar reglur svo að börnin í Reykjavík fari ekki á mis við frístundakortið og að íþróttahreyfingin geti haldið áfram að sinna því mikilvæga forvarnastarfi sem fer fram innan íþróttafélaganna. Forvarnastarf sem er til hagsbóta fyrir einstaklinga og samfélagið í heild sinni.




Skoðun

Sjá meira


×