Lífið

Týndi bílnum á bílastæði í hálft ár

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Það er stundum erfitt að finna bílinn.
Það er stundum erfitt að finna bílinn. Vísir/EPA
Eigandi bíls sem týndist í sex mánuði í margra hæða bílageymslu hefur nú loksins fundið bílinn sinn. Atvikið átti sér stað í Manchester borg í Englandi.  Manchester Evening News greinir frá.

Í júní síðastliðnum fékk vinur eigandans bílinn hans lánaðan og keyrði alla leið frá Skotlandi til Manchester til þess að fara á tónleika með uppáhalds hljómsveitinni sinni á Etihad vellinum. Hann mætti til Manchester borgar og ákvað að leggja bílnum miðsvæðis í borginni í margra hæða bílageymslu.

Að loknum tónleikunum tókst honum þó ekki að finna út úr því hvaða bílageymsla það var sem hann hafði lagt bílnum í. Þá tók við fimm daga leit hans að bílnum en að lokum gafst hann upp.

Eigandinn tók þá til sinna ráða og sendi tölvupóst á eins marga aðila og hann gat, þar með talið til borgaryfirvalda í Manchester, til þess að reyna að finna bílinn en allt kom fyrir ekki.

Í ágúst tilkynnti hann því til lögreglunnar að bíllinn væri stolinn/týndur.

Á seinasta degi ársins fann lögreglan í Manchester borg svo loksins bílinn þar sem vinur eigandans hafði lagt honum í júní og gat lögreglan ekki annað en tjáð sig á Twitter um atburðinn.

Talið er að eigandinn muni þurfa að borga rúmlega fimm þúsund pund í bílastæðagjöld eða um sjö hundruð þúsund krónur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×