Innlent

Tvöföldun hringvegarins myndi kosta 260 milljarða

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ekki er fyrirhugað að ráðast í framkvæmdir.
Ekki er fyrirhugað að ráðast í framkvæmdir. vísir/pjetur
Tvöföldun hringvegarins myndi kosta 200 til 260 milljarða króna. Hringvegurinn sem 2+1 vegur myndi kosta 130-170 milljarða króna, og er þá gert ráð fyrir óbreytta legu vegarins og að núverandi vegur sé fullgerður.

Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar, varaþingmanns Samfylkingarinnar. Ráðherrann segir þó engar áætlanir um að breikka Hringveginn, enda sé umferð um veginn nokkuð lítil. Því séu gefi fyrrgreindar tölur einungis lauslega hugmynd um hver kostnaðurinn yrði.

Gengið er út frá því að dæmið sé reiknað frá Selfossi og hringinn austur um að vegamótum Þingvallavegar og þéttbýlisköflum vegarins sleppt, enda sé þar oftast um sértækar lausnir að ræða. Í svarinu er gert ráð fyrir að tvöföldun vegarins kosti 150-200 millj.kr/km en gerð 2+1 vegar kosti 100-130 millj.kr./km. Þá er horft fram hjá dýrri framkvæmd eins og gerð brúar á Ölfusá, gerð vegar um Hornafjarðarfljót, Lagarfljót, Jökulsá á Fjöllum og fleira. Hringvegurinn er um 1.331 km að lengd en ráðhejrrann reiknar með 1.300 km, þegar þéttbýliskaflar hafa verið dregnir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×