Innlent

Tvöfalt siðgæði í málum flóttamanna

Linda Blöndal skrifar
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir mannréttindalögfræðingur hélt harðorða ræðu um málefni flóttamanna í dag.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir mannréttindalögfræðingur hélt harðorða ræðu um málefni flóttamanna í dag.
Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna (MFÍK) stóðu fyrir málþinginu FARÐU BURT í dag í Iðnó um málefni flóttamanna. Samtökin, sem hafa starfað samfellt frá árinu 1951, fengu erlenda flóttamenn til segja stuttlega frá lífi sínu og reynslu, en einnig voru flutt erindi sem snúa að lagalegri stöðu flóttamanna, viðhorfi stjórnvalda og fjölmiðla. Málþingið stóð frá klukkan tíu í morgun til klukkan fimm.

Tvískinnungum

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður MFIK, setti málþingið og gagnrýndi harðlega meðal annars innilokun eða fangelsun flóttamanna og það sem hún nefnir tvískinnung stjórnvalda. Hún sagði yfirvöld hér á landi nota öll möguleg verkfæri til að senda flóttafólk úr landi. Hún gagnrýndi líka stjórnvöld fyrir að vera ekki sýnileg á fundinum og að lykilfólk í málaflokknum hafi ekki mætt til umræðnanna.

Mismunað vegna hörundslitar

Þeir flóttamenn sem héldu erindi á málþinginu, frá Senegal, Íran og Afganistan, vildu ekki veita viðtöl um efni fundarins. Þórhildur Sunna sagði meðal annars í ræðu sinni að daglega fengju flóttamenn hér á landi skilaboðin „Farðu burt"og því væri viðeigandi að ræða mál flóttamanna undir þeirri yfirskrift. Þessu þyrfti að breyta. Hún sagði að hér ríkti ekki jafnrétti því sumir erlendir ríkisborgarar, helst hvítir á hörund, fengju góðar mótttökur, sér í lagi væru þeir á vegum einhvers innan stjórnkerfisins. 

Lögleiða Flóttamannasamning SÞ

Margar ályktanir voru samþykktar á fundinum, til dæmis að endurskoða ætti Dyflinarreglugerðina sem oftast er vísað til þegar flóttamenn eru sendir úr landi. Útfærslu hennar ætti að taka til gagngerrar skoðunar með samkennd og vernd í fyrirrúmi. Íslendingar ættu að axla ábyrgð á við aðrar þjóðir í móttöku flóttafólks. Þá var samþykkt að Ísland ætti að lögleiða Flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna án tafar og að fyrirmæli Mannréttindadómstóls Evrópu um bann við endursendingum flóttamanna við tilteknar aðstæður ætti að innleiða í reglur hérlendis. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×