Íslenski boltinn

Tvö lið enn taplaus og farin að nálgast 36 ára gamalt met

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kassim Doumbia í FH og Veigar Páll Gunnarsson í Stjörnunni berjast um boltann í 2-2 jafntefli toppliðanna fyrr í sumar.
Kassim Doumbia í FH og Veigar Páll Gunnarsson í Stjörnunni berjast um boltann í 2-2 jafntefli toppliðanna fyrr í sumar. vísir/Daníel
FH-ingar og Stjörnumenn hafa ekki enn kynnst því að tapa leik í Pepsi-deildinni á árinu 2014 og liðin eru efst og jöfn á toppnum þegar sjö leikir eru eftir.

Bæði eru liðin nú farin að nálgast 36 ára gamalt met Valsmanna yfir það að spila lengst inn í tímabilið án þess að tapa deildarleik.

FH og Stjarnan komast upp í annað sætið á listanum með því að tapa ekki í næstu umferð. Stjörnumenn taka þá á móti Blikum á sunnudagskvöldið og FH-ingar heimsækja Víkinga á mánudagskvöldið.

Aðeins tvö félög í sögu efstu deildar karla hafa náð því að fara taplaus í gegnum sextán fyrstu deildarleiki sína á tímabilinu en það var fyrst árið 1976 sem leikjum var fjölgað úr 14 í 16 og svo áfram í 18 sumarið 1977.

Valsmenn unnu sextán fyrstu leiki sína sumarið 1978 og tryggðu sér titilinn með jafntefli í þeim sautjánda áður en liðið kórónaði taplaust sumar með sigri á liðinu í 2. sæti, ÍA, í lokaleiknum.

FH og Stjarnan hafa þegar slegið metið frá 1978 sem var fyrir þetta sumar það sumar þar sem tvö lið voru lengst án taps. Skagamann töpuðu ekki leik fyrr en þeir mættu umræddum Valsmönnum í 9. umferð. Sumrin 1988 (Fram, ÍA), 2000 (Fylkir, Grindavík) og 2013 (KR, Valur) voru tvö lið taplaus fram í 8. umferð.

KR-liðið frá 2011 fór einnig taplaust í gegnum fyrstu sextán leiki sína áður en liðið tapaði fyrir FH í sautjánda leik sínum.

Stjarnan og FH eru nú í hópi tveggja annarra liða (Fram frá 1988 og FH frá 2005) sem töpuðu ekki í fyrstu fimmtán leikjum sínum. Þegar fyrsta tap þeirra beggja kom í 16. umferðinni þá voru þau bæði búin að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Það er öruggt að gengi FH og Stjörnunnar mun breyta þeirri reglu að það sem leikur ellefu fyrstu leikina án taps verði Íslandsmeistari. Tíu félög höfðu fyrir þetta tímabil farið taplaus í gegnum fyrstu 11 leiki sína og öll höfðu þau fagnað Íslandsmeistaratitlinum um haustið.

Sú hefð breytist í ár því ekki gera bæði Stjörnumenn og FH-ingar unnið Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi-deildinni í ár.

Fram undan er mikið einvígi um Íslandsmeistaratitilinn og hver veit nema að liðin tvö verði enn taplaus þegar þau mætast í mögulegum úrslitaleik um titilinn í lokaumferðinni. Þangað til getur hins vegar margt gerst.

Flestir deildarleikir inn í tímabil í efstu deild án þess að tapa:

18 - Valur 1978 (17 sigrar. 1 jafntefli taplaust á tímabilinu)

16 - KR 2011 (11 sigrar, 5 jafntefli)

15 - FH 2014 (10 sigrar, 5 jafntefli)

15 - Stjarnan 2014 (10 sigrar, 5 jafntefli)

15 - FH 2005 (15 sigrar)

15 - Fram 1988 (14 sigrar, 1 jafntefli)

14 - Fram 1972 (9 sigrar, 5 jafntefli, taplaust á tímabilinu)

14 - Keflavík 1973  (12 sigrar, 2 jafntefli, taplaust á tímabilinu)

14 - ÍA 1974  (9 sigrar, 5 jafntefli, taplaust á tímabilinu)

13 - ÍA 1995 (12 sigrar, 1 jafntefli)

11 - Valur 1976 (7 sigrar, 4 jafntefli)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×