Lífið

Tveir kaffibollar á dag gætu komið í veg fyrir lifrarkrabbamein

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Niðurstöður rannsóknarinnar eru gleðitíðindi fyrir þá sem eru hrifnir af kaffi.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru gleðitíðindi fyrir þá sem eru hrifnir af kaffi. Vísir/Getty
Fólk sem drekkur kaffi er í töluvert minni hættu á að fá krabbamein í lifur en fólk sem drekkur ekkert kaffi. Þetta kemur fram í greiningu á gögnum úr 26 rannsóknum en samanlagður fjöldi þátttakenda er rúmar 2 milljónir. Sérfræðingar úr Háskólanum í Southampton og Edinborgarháskóla sáu um túlkun gagnanna. The Guardian greinir frá.

Samkvæmt rannsókninni eru þeir sem drekka einn kaffibolla á dag 20 prósent ólíklegri til að þróa með sér HCC, algengustu gerð lifrarkrabbameins, en þeir sem drekka ekkert kaffi. Þá voru þeir sem drekka tvo kaffibolla á dag 35 prósent ólíklegri til að fá krabbameinið og þeir sem drekka fimm bolla eru 50 prósent ólíklegri. 

Koffínlaust kaffi hafði sambærileg áhrif, þó þau hafi verið öllu vægari en í tilfelli þeirra sem drekka kaffi með koffíni. Túlkun gagnanna leið þó fyrir það að „nákvæm skilgreining á „kaffi“ er ekki til.“

„Kaffi er talið hafa fjölbreyt og jákvæð áhrif á heilsufar og þessar niðurstöður benda til þess að það gæti haft töluverð áhrif á þá áhættuþætti er koma að lifrarkrabbameini,“ sagði Oliver Kennedy, sem fór fyrir rannsóknarteyminu í Háskólanum í Southampton.

Hann varaði þó við því að fólk hæfi óhóflega kaffidrykkju og segir að betur þurfi að rannsaka mögulegan skaða sem mikil neysla koffíns hefur í för með sér. Niðurstöður þessarar nýju rannsóknar eru þó gleðifréttir fyrir þá sem þykir morgunbollinn góður.

„Rannsóknir okkar renna stoðum undir það að kaffi getur verið dásamlegt náttúrulegt lyf – í hófi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×