Lífið

Túra með Florence and the Machine

Adda Soffia Ingvarsdóttir skrifar
Þær Valdís og Björk á æfingu á þriðjudag, en Sigrún var því miður fjarri góðu gamni.
Þær Valdís og Björk á æfingu á þriðjudag, en Sigrún var því miður fjarri góðu gamni. Vísir/getty
„Það er bara mikill heiður að við vorum beðnar um þetta, einhverjir vitleysingar úr Hafnarfirði og Mosfellsdal,“ segir Valdís Þorkelsdóttir trompet- og flygilhornleikari og hlær. Hún ásamt Sigrúnu Jónsdóttur, básúnuleikara og Björk Níelsdóttur, trompet- og flygilhornleikara, munu spila og syngja bakraddir á tónleikaferðalagi bresku indie-hljómsveitarinnar Florence and the Machine, með söngkonuna Florence Welch fremsta í flokki.

„Við fengum símtal frá tónlistarstjóranum hjá Florence, en hann þekkir production manager hjá Björk sem benti honum á okkur,“ segir hún um tilkomu verkefnisins. Þær stöllur kynntust fyrst þegar þær spiluðu saman á Volta-túr Bjarkar Guðmundsdóttur. „Þetta eru því eiginlega endurfundir hjá okkur þremur, enda erum við næstum eins og systur núna,“ segir Valdís hress.

Hún segist ekki hafa haldið mikið upp á Florence, en eftir að hafa hlustað á tónlistina fyrir æfingar sé hún kolfallin fyrir henni. „Það er rosalegur kraftur í henni og hún er ótrúleg söngkona, eiginlega bara legend,“ segir Valdís, en hún er dóttir ástsælu óperusöngkonunnar Diddú.

Vísir
Á tónleikaferðalagi Bjarkar voru þær aðallega að spila á málmblásturshljóðfæri, en nú bætist meiri söngur við. „Við erum búnar að vera að æfa í tíu daga, alveg upp í tólf klukkutíma á dag. Þetta er alveg svolítið heavy stöff en jafn skemmtilegt eins og þetta er erfitt. Okkur líður svolítið eins og við séum í poppstjörnukaríókí,“ segir Valdís og hlær. 

Ný plata með sveitinni er væntanleg í júní. „Þessi túr verður svolítið nýja stöffið í bland við gamla, ég held að við séum að taka fjögur ný lög núna til að byrja með, svo bætist við með sumrinu. Það er rosalega mikið brass á nýju plötunni og þess vegna vorum við fengnar inn í þetta verkefni,“ segir hún.

Framundan eru stórar hátíðir eins og Coachella í Los Angeles, sem er ein sú allra vinsælasta hjá stjörnunum. Einnig eru óstaðfestar fréttir á sveimi um að hljómsveitin muni koma fram á Glastonbury-hátíðinni. „Það er verið að staðfesta fleiri hátíðir og áfangastaði núna, en ég má ekki segja meira um það eins og er,“ segir Valdís að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×