Íslenski boltinn

Tryggir ekki eftir á

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Atli Steinþórsson, leikmaður Breiðabliks, neyddist til að leggja skóna á hilluna, aðeins 29 ára gamall, eftir að hann greindist með hjartagalla. Í skoðun í tengslum við Evrópuleik Breiðabliks og Jelgava í sumar kom stækkun á hjartavöðva í ljós við ómskoðun.

„Ég viðurkenni alveg að þetta var skellur. Ég er búinn að vera í íþróttinni síðan ég var krakki og svo er hún tekin af manni á einu augnabliki. Maður er svolítið valdalaus,“ sagði Guðmundur í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Guðmundur lék lengst af í neðri deildunum. Hann skoraði 41 mark í 65 leikjum með HK í 1. og 2. deild á árunum 2013-15 og fékk í kjölfarið tækifæri á að spila með Breiðabliki í Pepsi-deildinni. Hann náði þó aðeins að leika sex deildarleiki með Blikum.

Guðmundur vonast til að leikmenn verði skoðaðir reglulega hér landi en hjartgallinn uppgötvaðist út af því að Breiðablik var að spila í Evrópukeppni. Knattspyrnusamband Evrópu er með strangt eftirlit og lætur alla leikmenn í Evrópukeppnum gangast undir læknisskoðun.

„Félögin og KSÍ ættu að reyna að komast að einhverju samkomulagi um að láta leikmenn fara í skoðun. Menn tryggja sig ekki eftir á í svona málum. Þegar slysin gerast eru þau alvarleg. Það þarf oft einhver slys til að eitthvað sé gert í svona málum,“ sagði Guðmundur.

Fréttina má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×