Lífið

Trompetið er loksins orðið töff

Ragnhildur kemur 18 sinnum fram á Iceland Airwaves-hátíðinni með fimm hljómsveitum.
Ragnhildur kemur 18 sinnum fram á Iceland Airwaves-hátíðinni með fimm hljómsveitum. fréttablaðið/vilhelm
„Það er nóg að gera hjá mér þessa vikuna,“ segir Ragnhildur Gunnarsdóttir trompetleikari.

Ragnhildur kemur 18 sinnum fram á Iceland Airwaves-hátíðinni, sem hófst á miðvikudag. Hún blæs í trompetið með hljómsveitunum Nora, Valdimar, Útidúr, Orphic Oxtra og hinni gríðarlega vinsælu Of Monsters and Men. Dagskráin hjá Ragnhildi hófst á þriðjudag, með tónleikum með Útidúr á Kaffibarnum, en þegar Fréttablaðið náði í hana var hún stödd í auga hvirfilbylsins, ef svo má að orði komast.

„Þetta er mjög skemmtilegt, en þetta er erfitt — trompet er ekki auðveldasta hljóðfærið til að spila mikið á. Þannig að ég verð þreytt þegar það er mikið að gera, en þetta er gaman.“

Ertu þá ekki með þanin lungu?

„Jú, það mætti segja það.“

En þarf að huga að einhverju sérstöku mataræði til að þrauka út svona törn?

„Nei, ég er aðallega að reyna að finna tíma til að borða. Ég er hlaupandi út um allt.“

Ragnhildur hefur spilað á trompet síðustu tólf ár, frá því hún var tíu ára gömul, og nemur djass í FÍH. Hún segir vinsældir trompetsins vera að aukast þar sem það sé vart þverfótað fyrir trompetleikurum á Iceland Airwaves. „Það eru trompetleikarar úti um allt,“ segir hún. „Trompetið er loksins orðið töff. Það var ekki töff fyrir svona tíu árum, enda bara tengt við lúðrasveitir og svona. Nú getur maður spilað í víðara samhengi.“

- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×