Lífið

Tom Hiddleston ræðir sambandið við Taylor Swift: „Auðvitað var þetta raunverulegt“

atli ísleifsson skrifar
Taylor Swift og Tom Hiddleston á meðan allt lék í lyndi.
Taylor Swift og Tom Hiddleston á meðan allt lék í lyndi. Vísir/EPA
Breski leikarinn Tom Hiddleson hefur loks rætt samband hans og bandarísku söngkonunnar Taylor Swift og ástæður þess að hann klæddist stuttermabol með áletruninni „I <3 T.S.“ sem mikið var fjallað um síðasta sumar.

Hin 36 ára Hiddleston ræðir sambandið umtalaða í viðtali við GQ, auk löngu göngutúranna sem hann fer í og aðdáun sína á Tom Hanks.

Samband þeirra Hiddleston og Swift stóð í þrjá mánuði og voru fjölmiðlar fljótir að uppnefna þau „Hiddleswift“. Orðrómur um samband þeirra fór á flug í júní, skömmu eftir að þau Swift og tónlistarmaðurinn Calvin Harris höfðu slitið sambandi sínu.

Í september bárust svo fréttir af því að Hiddleswift væri lokið.

Raunverulegt samband

Í frétt GQ segir að þau Hiddleston og Swift hafi ferðast til Englands til að heimsækja fjölskyldu hans og svo til Ástralíu þar sem upptökur á nýjustu mynd hans, „Thor: Rafnarok“ fóru fram.

„Taylor er stórkostleg kona. Hún er örlát, góð og falleg og við höfðum það mjög gott saman,“ segir Hiddleston í viðtalinu.

„Auðvitað var þetta raunverulegt,“ segir Hiddleston, aðspurður um hvort sambandið hafi verið það.

I <3 T.S.

Í viðtalinu er hann einnig spurður um atvikið þar sem myndir náðust af honum á ströndinni í „I <3 T.S.“-bolnum þegar haldið var upp á þjóðhátíðardag Bandaríkjanna, 4. júlí , og orðróm um að Swift hafi hætt með honum þar sem hún hafi þótt hann vera of ágengur í sambandinu.

„Sannleikurinn er sá að það var 4. júlí og föstudagur. Við vorum að leika okkur og ég rann og meiddi mig á baki. Ég vildi vernda sárin frá sólinni og spurði hvort einhver væri með stuttermabol,“ segir Hiddleston.

Hiddleswift á ströndinni.
Ein vinkona Swift á þá að hafa boðið honum umræddan bol. „Við hlógum öll að þessu. Þetta var grín,“ segir hann.

Hiddleston ræðir jafnframt erfiðleikana sem fylgja því að vera í sambandi á meðan kastljós fjölmiðla beinist að manni og ljósmyndarar eru á hverju strái.

„Ég þekki bara konuna sem ég hitti. Hún er ótrúleg. Samband í sviðsljósinu… Það krefst vinnu að vera í sambandi og að vera í sambandi í sviðsljósinu krefst einnig vinnu. Og það er ekki bara sviðsljósið… Það er allt sem fylgir því líka,“ segir Hiddleston.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×