Innlent

Töluvert um tjón vegna ófærðarinnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
ófærð Það hefur verið nóg að gera við snjómokstur í Reykjavík og víðar undanfarna daga.fréttablaðið/GVA
ófærð Það hefur verið nóg að gera við snjómokstur í Reykjavík og víðar undanfarna daga.fréttablaðið/GVA vísir/gva
Töluvert hefur verið um tjón í umferðinni í þeirri slæmu færð sem hefur verið á landinu undanfarið. Talsmenn þriggja stærstu tryggingafélaganna segja þó að alvarlegustu slysin verði þegar færð er góð.

Samkvæmt upplýsingum frá Birni Friðriki Brynjólfssyni, upplýsingafulltrúa VÍS, hefur tilkynningum um tjón í ábyrgðartryggingu ökutækja fjölgað um 8 prósent í desember miðað við sama tíma í desember í fyrra.

Ragnheiður Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri samskipta hjá Tryggingamiðstöðinni, segir að töluvert hafi verið um tjón í desember. Hún sé hins vegar ekki viss um að það sé aukning á milli ára, því desember í fyrra hafi vissulega verið slæmur líka.

„Það er kannski svolítið merkilegt að þegar færðin og veðrið er mjög slæmt, þá er eins og fólk hægi á sér og fari varlega. Þó málin séu mörg eru þau kannski minni en þegar fólk er á fullri ferð og færðin er góð,“ segir Ragnheiður.

Alvarlegustu slysin verði þegar hraðinn er mikill en þegar færðin er þannig að það er mikil hálka, það kyngir niður snjó og vindur er mikill, þá geti fólk einfaldlega ekki keyrt hratt.

Sumarliði Guðbjörnsson, sérfræðingur hjá Sjóvá, segir að þessa dagana sé töluvert mikið um tjón. „Það eru bæði árekstrar og menn eru að velta bílunum sínum og lenda út af veginum í vondu veðri,“ segir hann.

Hann segir það reynslu sína eftir 23 ára starf að alvarlegustu slysin verði þó ekki í ófærð heldur þegar göturnar séu auðar. Alvarlegustu slysin geti því orðið á vorin eða á sumrin og oft á nóttunni eða um helgar.

„Einfaldlega vegna þess að þá er hraðinn meiri,“ segir hann.

Sumarliði segir að í færðinni eins og hún er núna þurfi fólk að vera á góðum dekkjum. Heilsársdekk nái ekki góðu gripi þegar ís hefur myndast og því dugi ekkert minna en naglar. „Fólk sem hefur ákveðið að vera á heilsársdekkjum og er á vanbúnum ökutækjum þarf þá að sýna þann kjark að taka þá ákvörðun að bíða heima hjá sér og fara ekki út í óvissuna. Í stað þess að eiga það á hættu að lenda í umferðaróhappi eða lenda í þeirri stöðu að sitja fastur og teppa þá kannski hundruð manna frá því að komast á réttum tíma í vinnu,“ segir Sumarliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×