Fótbolti

Tólfan fór á kostum í Leifsstöð í nótt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Liðsmenn Tólfunnar, stuðningssveitar íslenskar karlalandsliðsins í knattspyrnu, voru mættir klukkan þrjú í nótt í Leifsstöð. Framundan er draumaferðin til Amsterdam með viðkomu í Kaupmannahöfn þar sem stuðningsmenn landsliðsins af Norðurlöndunum ætla að koma saman.

Þeir voru heldur betur hressir um sexleytið í morgun og tóku reglulega lagið fyrir gesti í flugstöðinni. Joey Drummer og félagar sungu og klöppuðu milli þess sem þeir sötruðu drykki og hlógu.

Heljarinnar partý verður í Kaupmannahöfn annað kvöld þar sem spurningakeppni fer fram. Þemað er að sjálfsögðu fótbolti þar sem þjóðþekktir Íslendingar sjá um að bera upp spurningarnar. Um 70 kíló af íslensku sælgæti skiptist á meðal vinningshafanna.

Fyrrnefndir liðsmenn Tólfunnar ætla að mæta til Amsterdam á miðvikudaginn eftir hóphristinginn í Kaupmannahöfn og fara fyrir stuðningsmönnum Íslands sem verða væntanlega í kringum 3000 þegar kemur að stóru stundinni á fimmtudagskvöldið.

Uppfært klukkan 15:00

Rétt er að taka fram að opinber ferð Tólfunnar og fjölmennasti hópurinn fer frá Íslandi á fimmtudagsmorgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×