Innlent

Tók á níunda ár að klára mál hjá Viðlagatryggingu eftir skjálfta

Sveinn Arnarsson skrifar
Segja má að ófriður hafi ríkt um Friðarstaði allt frá árinui 2008.
Segja má að ófriður hafi ríkt um Friðarstaði allt frá árinui 2008. mynd/aðsend
Úrskurðarnefnd um Viðlagatryggingar gagnrýnir Viðlagatryggingasjóð harðlega í úrskurði sínum um málefni Friðastaða sem kveðinn var upp í desember. Telur nefndin málið hafa tekið óeðlilega langan tíma. Framkvæmdastjóri Viðlagatrygginga segir það mat byggt á reginmisskilningi.

Hulda Ragnheiður Árnadóttirvísir/vilhelm
Hjónin Diðrik og Ingileif Kristjánsdóttir hafa frá árinu 2008 barist fyrir því að fá íbúðarhús sitt bætt að fullu eftir Suðurlandsskjálftann í lok maí það ár. Diðrik hefur lagt á annan tug milljóna í lögfræðikostnað. Vilja þau að tryggingarfjárhæðin miðist við brunabótamat fasteignarinnar, um 22 milljónir króna.

„Úrskurðarnefndin telur að endingu óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við meðferð Viðlagatryggingar Íslands á málinu, allt frá því að það kom fyrst til kasta stofnunarinnar í júní 2008. Telur úrskurðarnefndin að það verklag sem og sá tími sem farið hefur í meðferð málsins sé vart viðunandi,“ segir í úrskurðinum. Telur nefndin verklag ekki í teljast til góðrar stjórnsýslu og bætur til kæranda komi mjög til álita en dómstólar þurfi að skera úr um það.

„Þetta hefur tekið gríðarlega langan tíma og hefur töfin kostað mig yfir tíu milljónir króna sem Viðlagatryggingar vilja ekki greiða fyrir,“ segir Diðrik Sæmundsson. „Eins og þetta horfir við mér eftir allan þennan tíma þá hef ég þá tilfinningu að eignir fólks séu í raun ótryggðar fyrir svona tjónum ef maður þarf að fara í svona langt og erfitt mál gegn kerfinu til að fá það bætt. Eins er það ekki að fullu bætt að mínu mati,“ bætir Diðrik við.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatrygginga Íslands, segir úrskurð nefndarinnar byggðan á misskiliningi. „Málið hefur verið jafnlengi hjá úrskurðarnefndinni sjálfri og hjá okkur. Við höfum sýnt fram á það að við höfum alla tíð verið að vinna að málinu. Málið hefur aldrei legið hjá okkur óhreyft,“ segir Hulda Ragnheiður. „Persónulega finnst mér þetta hinsvegar mjög langur tími og vill að málin taki styttri tíma. Hinsvegar eru mál stjórnsýslulega mjög flókin þegar uppi er ágreiningur um nánast öll efnisatriði málsins.“

„Miðað við núverandi kerfi þarf að kæra til stjórnar Viðlagatryggingar fyrst og fá niðurstöðu þar. Þá niðurstöðu er svo hægt að kæra til úrskurðarnefndarinnar. Til að hraða málum sem þessum þar sem mikill ágreiningur er uppi, væri eðlilegt að það væri einn óháður úrskurðaraðili sem fjallaði um málið,“ bætir Hulda Ragnheiður við.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×