Innlent

Tíu handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Mikið var um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Mikið var um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu í nótt. vísir/ktd
Umferðardeild lögreglu var með umferðareftirlit á Skólavörðuholti í gærkvöldi. Alls voru tíu ökumenn handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Tveir af þeim voru vistaðir í fangageymslu þar sem þeir sinntu ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og óku af vettvangi. Þá voru fjórir látnir hætta akstri og lyklar haldlagðir af lögreglu þar sem þeir höfðu neytt áfengis en öndunarsýndi áfengismagn undir refsimörkum.

Þá voru þrír ökumenn til viðbótar stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Þar af keyrði einn án réttinda og var um ítrekað brot að ræða.

Lögreglan handtók mann við lögreglustöðina við Hverfisgötu. Maðurinn var í annarlegu ástandi og hafði verið að trufla störf lögreglu við Skólavörðuholt og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Því næst fór maðurinn á lögreglustöðina við hverfisgötu þar sem hann hélt áfram að trufla störf lögreglu. Maðurinn var vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.

Þá var óskað eftir lögreglu við Geðdeild Landsspítala vegna ungs manns sem sagður er hafa verið í annarlegu ástandi. Maðurinn óskaði eftir innlögn strax vegna fíkniefnavanda en varð ekki að ósk sinni. Maðurinn var vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.

Þá var tilkynnt um nytjastuld bifreiðar. Ökumaðurinn var undir áhrifum áfengis og hafði því fengið mann sem hann þekkti ekki til að aka bílnum fyrir sig úr miðbænum. Mennirnir höfðu farið á N1 við Hringbraut til að kaupa bensíns en þá hafði ókunni maðurinn ekið á brott. Bílinn fannst 20 mínútum síðan í Grafarholti og voru tveir aðilar í bifreiðinni sem voru handteknir og vistaðir í fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×