Innlent

Tímaspursmál hvenær þarf að neita krabbameinssjúklingum um ný lyf

Atli Ísleifsson skrifar
Þorvarður Hálfdánarson starfar sem krabbameinslæknir á Mayo Clinic í Scottsdale í Arizona.
Þorvarður Hálfdánarson starfar sem krabbameinslæknir á Mayo Clinic í Scottsdale í Arizona. Vísir
„Það er einungis tímaspursmál hvenær við þurfum að neita fólki um þessi nýju lyf,“ segir Þorvarður Hálfdánarson, krabbameinslæknir á Mayo Clinic í Scottsdale í Arizona, aðspurður um stöðu krabbameinslækninga hér á Íslandi.

Þorvarður segir Íslendinga nú hafa aðgang að góðum krabbameinslyfjum, sennilega að mestu leyti þeim bestu sem völ er á. Nú sé hins vegar staðan sú að „við, sem þjóðfélag, getum ekki borgað þessi nýju lyf fyrir marga af okkar krabbameinssjúklingum.“

Þorvarður mætti í viðtal í Bítið í morgun þar sem hann ræddi krabbameinsrannsóknir sínar og fleira. Hann segist ekki lítast vel á stöðuna á krabbameinsdeild á Landspítalanum. „Hér vantar tæki. Launin eru léleg.“

Hann segir talsverða fækkun krabbameinslækna hafa orðið og að engin nýliðun sé í sjónmáli. „Miðað við þau kjör og aðstæður sem boðið er upp á í dag þá sé ég ekki að kollegar mínir séu á leiðinni heim. Flestir eru starfandi við stór sjúkrahús erlendis þar sem aðgengi er að lyfjum, tækjum, rannsóknum og á talsvert betri launum. Ég sé ekki fram á að nokkur vilji koma heim og starfa undir þessum kringumstæðum.“

Ert þú sjálfur á leiðinni heim?

„Ekki á næstunni. Ég segi alltaf fimm ár í viðbót. Á fimm ára fresti segi ég fimm ár í viðbót.“

Hlusta má á allt viðtalið við Þorvarð í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×