Innlent

Tiltekt boðuð hjá Reykjanesbæ

Sveinn Arnarsson skrifar
Skuldir sliga bæjarsjóð Reykjanesbæjar og mun taka tæpan áratug að ná skuldaviðmiði sveitarfélaga.
Skuldir sliga bæjarsjóð Reykjanesbæjar og mun taka tæpan áratug að ná skuldaviðmiði sveitarfélaga. Fréttablaðið/gva
„Ég er afar þakklátur fyrir það hversu rólegir og yfirvegaðir íbúar Reykjanesbæjar voru á íbúafundinum,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, um íbúafund sem haldinn var í Stapa í fyrrakvöld.

Á fundinum voru kynntar tvær skýrslur sem sýndu fram á gríðarlega erfiða rekstrarstöðu bæjarfélagsins eftir óráðsíu síðustu tólf ára. Fram kom á fundinum og í skýrslunum að rekstur sveitarfélagsins er ekki sjálfbær og mun ekki ná skuldaviðmiðum nema miklum aðhaldsaðgerðum verði hrint í framkvæmd.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru margir gestir undrandi á því að fyrri meirihluti hafi ekki þurft að svara fyrir bókhaldslegar misgjörðir sínar. Fannst nokkrum fundargestum í Reykjanesbæ þeir hafa sloppið helst til of vel frá fundinum. Um 500 íbúar sóttu fundinn í Stapa og um tvö þúsund til viðbótar horfðu á beint streymi af fundinum á vef Reykjanesbæjar.

Skuldir Reykjanesbæjar eru um 40 milljarðar króna. Skuldahlutfall bæjarfélagsins, skuldir sem hlutfall af reglulegum tekjum bæjarins, er um 270%. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum mega sveitarfélög ekki skulda meira en 150% af reglulegum tekjum. Árið 2002 skuldaði Reykjanesbær 8,3 milljarða króna. Sú tala var komin upp í 40 milljarða árið 2013.

Frá árinu 2002 til ársins 2013 vantaði í rekstur sveitarfélagsins um 25 milljarða króna til að halda því á réttum kili. Þessir 25 milljarðar sem vantaði upp á voru á tímabilinu fengnir með nýjum lántökum upp á um 12 milljarða og sölu eigna fyrir svipaða upphæð. Að mati skýrsluhöfunda er staða bæjarfélagsins alvarleg og mikilvægt er að taka málin föstum tökum.

Nú er svo komið að eignir sveitarfélagsins eru ekki miklar og miklar skuldir sitja eftir á sveitarfélaginu. Á sínum tíma fyrir hrun var Reykjanesbær hluti af eignarhaldsfélaginu Fasteign. Þar sem einkahlutafélagið keypti fasteignir sveitarfélaganna og lánaði þeim aftur. Sjö af tíu skuldugustu sveitarfélögum landsins voru í viðskiptum við þetta einkahlutafélag þar sem þetta módel var notað.

Friðjón Einarsson
Friðjón segir stöðuna vera slæma en tekur það fram að nú þurfi að láta hendur standa fram úr ermum. „Nú vitum við stöðuna og nú þurfum við að taka erfiðar ákvarðanir um framhaldið. Það er ljóst að við þurfum að hagræða en munum verja grunnþjónustu af öllu afli.“ 

Friðjón gefur síðasta meirihluta ekki góða einkunn þegar kemur að rekstri bæjarins. „Ég varð bæjarfulltrúi 2010 og á þeim fjórum árum hef ég gagnrýnt harðlega fjárhagsáætlanir fyrri meirihluta á hverju einasta ári. Það kannski lýsir því best hvað mér finnst um þau vinnubrögð sem voru stunduð,“ segir Friðjón. 

Veigamestu tillögur til að snúa rekstrinum við, fjalla um að lækka launakostnað sveitarfélagsins. Gert er að tillögu að yfirvinnubann verði sett á í Reykjanesbæ og aðeins verði heimil yfirvinna í undantekningartilfellum og þá með samþykki bæjarstjóra eða fjármálastjóra. Einnig er lagt til að laun verði greidd samkvæmt kjarasamningum. Ef um sé að ræða hærri laun vegna óunninnar yfirvinnu verði þeir samningar teknir til endurskoðunar. Að lokum er lagt til að greiðslur bifreiðastyrkja samkvæmt samningum verði teknar til endurskoðunar og aðeins greitt fyrir raunverulegan akstur. 

KPMG kynnti einnig samantekt sína um leið til að snúa stöðunni við. Sú áætlun nefnist „Sóknin“ þar sem ítarlega er farið yfir hvernig hægt er að bæta stöðu Reykjanesbæjar. Tillögurnar miða að því að skera niður rekstrarkostnað um 500 milljónir króna og auka tekjur bæjarsjóðs um 400 milljónir. Reykjanesbær þurfi um 900 milljónir í aukna framlegð til að bæta hag bæjarins.


Tengdar fréttir

Hvað segja íbúar Reykjanesbæjar?

Reykjanesbær stendur á tímamótum og þarf að taka til í rekstri bæjarins næsta áratuginn. Fréttastofa spurði íbúa hvernig þeim litist á blikuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×